Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 16:16:29 (1360)

1997-11-18 16:16:29# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., VS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:16]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að láta þess getið að síðasti hv. ræðumaður hélt eiginlega þá ræðu sem ég hefði viljað halda þannig að ég þarf ekki að hafa langt mál. En ég kem þó hér upp sem þingmaður Framsfl. til að láta þess getið að ég styð þetta frv. í öllum aðalatriðum. Ég vil þó ekki á þessari stundu skrifa undir að ekki geti komið til þess að gerðar verði einhverjar breytingar á frv. í hv. efh.- og viðskn. Ég get ómögulega tekið undir þau orð sem hér hafa fallið, og ég hlýt eiginlega að mótmæla þeim, að hv. Alþingi sem fer með löggjafarvaldið hafi ekki það vald áfram. Það mátti nánast skilja hv. 8. þm. Reykv. þannig að það væri bara hægt að gera samning um þetta út í bæ. Ég spyr: Var þá nokkur ástæða til að setja lög? Auðvitað höfum við það vald á hv. Alþingi að setja lög, en það er ákaflega mikils virði að það verði gert í samvinnu og nánu samstarfi við aðila vinnumarkaðarins þar sem þetta mál skiptir þá verulegu máli og snýr náttúrlega að þeirra hagsmunum. En þó er það nú svo, og það hefur verið komið inn á það í þessari umræðu, að Jón og Gunna sem eru einhvers staðar á vinnumarkaði og greiða í lífeyrissjóð hafa kannski ekki alltaf mikið tækifæri til að koma að þessu máli. Það er ekki alveg útilokað að hugsa sér að þjóðkjörnir fulltrúar þjóðarinnar á Alþingi séu fulltrúar þessara einstaklinga ekki síður en forsvarsmenn þeirra í viðkomandi lífeyrissjóði.

En með því að leggja frv. fram sem raun ber vitni erum við náttúrlega að ná ákeðinni málamiðlun. Ég er engin öfgamanneskja og yfirleitt styð ég að náð sé málamiðlunum eins og miðjumönnum er lagið. Hér er félagsleg hugsun höfð að leiðarljósi og ákveðin samtrygging, en engu að síður einstaklingsbundinn sparnaður, sérstaklega hvað varðar viðbótarsparnaðinn. Ég held að ekki sé nokkur vafi á því að það útspil ríkisstjórnarinnar að hækka frádráttarbærni upp í 6% hjá einstaklingum hafi ráðið úrslitum um að þarna náðist samkomulag. Nefndin skilar frá sér einu áliti í málinu. Þess vegna fannst mér það sérkennilegt fyrst að þetta er samkomulag og aðilar vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfingin, taldi þetta einhvers virði í þessu starfi, að þá skyldi hv. 11. þm. Reykn., sem talaði fyrr í umræðunni, gera lítið úr þessu ákvæði og telja að það komi aðeins þeim sem ríkir eru til góða. Fyrst verkalýðshreyfingin taldi þetta einhvers virði þá er það vel og hlýtur þá að vera þeirra skjólstæðingum í hag.

Ég legg áherslu á að það er mikilvægt að hér er tekið á því að makar hafa verið illa settir í þessu kerfi fram til þessa. Nú er komin tillaga um breytingar þar á með því að makar fái aðild að réttindum með sérstökum samningum. Eins er í frv. frekara ákvæði um að allir séu með og það er vel. Nokkur misbrestur hefur verið á því að fólk hafi greitt í lífeyrissjóð og við verðum að gera okkur vonir um að með þessu frv. og samþykkt þess verði þau mál færð til betri vegar. Auðvitað erum við að fjalla um gríðarlega hagsmuni og mikla fjármuni. Þess vegna er eðlilegt að mismunandi skoðanir séu uppi um það hvernig málum skuli háttað. En eins og þetta frv. er fram komið þá lýsi ég ánægju með það fyrir hönd okkar framsóknarmanna og vonast til að það verði að lögum áður en mjög langt um líður.