Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 16:21:22 (1361)

1997-11-18 16:21:22# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:21]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins út af orðum hv. þm. um að ég hafi talið að það væri lokað fyrir breytingar á málinu. Mér fannst að hv. þm. væri að gefa í skyn að við værum læst inni í einhverja lokaða múra. Því vil ég skýra sjónarmið mín sem eru þessi: Aðilar málsins gerðu samning. Hann liggur hér fyrir. Fjmrh. mælir fyrir þeim samningi. Stjórnarflokkarnir hafa samþykkt þann samning. Fyrst málið er þannig þá segir sig sjálft að þeim samningi veður ekki breytt nema allir aðilar málsins séu sáttir við það. Ef málinu er breytt í andstöðu við aðila málsins þá er verið að rjúfa samninginn, er verið að rjúfa sáttina. Það sem ég var að segja við talsmenn Sjálfstæðisflokksins fyrr í dag var að ég teldi að það væri óskynsamlegt af þeim að gera ráð fyrir að skynsamlegt væri að rjúfa þessa sátt. Ég skildi hv. þm. þannig að hún væri þeirrar skoðunar að það ætti ekki að rjúfa þessa sátt. Þar með erum við sammála. Þar með er það athyglisvert og ég óska henni til hamingju með það að hún er fyrsti þingmaður stjórnarliðsins í dag fyrir utan hæstv. fjmrh. sem talar með málinu.