Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 16:23:51 (1363)

1997-11-18 16:23:51# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:23]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ótrúlega framsóknarlegur útúrsnúningur. Það sem ég var ósköp einfaldlega að segja var að hér liggur fyrir samningur aðila úti í þjóðfélaginu og ríkisstjórnarflokkanna. Ég er að segja: Menn breyta þeim samningi ekki nema gerður verði samningur um breytingarnar. Ef menn ætla að breyta honum án þess þá væri verið að rjúfa sáttina. Ég spyr hv. þm. úr því hún heldur þessu svona til haga aftur og aftur: Er hún að boða að það eigi að knýja fram breytingar á þessum samningi, þessu frv., í blóra við þá aðila sem hafa stofnað til þessa samkomulags úti í þjóðfélaginu? Er hún að gera lítið úr þeim með þessu endalausa tali um að Alþingi megi ekki beygja sig fyrir aðilum úti í þjóðfélaginu? Ég veit ekki betur en að þessir aðilar úti í þjóðfélaginu sem alltaf er verið að tala um hér í þessum ræðustól með fyrirlitningu aftur og aftur séu m.a. kjósendur okkar allra sem hér erum. Ég skil því ekki þessa uppsetningu.

Hitt er mér svo ljóst og var áður en hv. þm. veitti andsvar við ræðu minni að Alþingi hefur löggjafarvaldið.