Skyldutrygging lífeyrisréttinda

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 16:31:27 (1366)

1997-11-18 16:31:27# 122. lþ. 27.1 fundur 249. mál: #A skyldutrygging lífeyrisréttinda# (heildarlög) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[16:31]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegur forseti. Ég býst við að senn sé liðið að lokum þessarar fyrstu umræðu um þetta mikilvæga mál. Ég vil nota það tækifæri sem hér gefst til að þakka hv. þm. fyrir málefnalega umræðu. Það kemur mér ekkert á óvart að vissir þingmenn hafi fyrirvara um einstakar greinar frv. En ég er þess fullviss að hjá öllum stjórnmálaflokkum ríkir mikil eindrægni um að þetta frv. verði að lögum sem allra fyrst enda er hér um að ræða gífurlega mikilvægan áfanga þótt ekki sé þetta endastöð eins og áður er getið.

Við erum að ræða hér um langtímasjónarmið, um langtímasparnað, um það að mynda sjóð til að fólk sem kemst á fullorðinsár geti haft nokkurt öryggi. Þetta er dálítið nýtt fyrir okkur að hugsa til langs tíma. Í raun og veru er umræðan hér í dag afrakstur þess að okkur tókst fyrr á þessum áratug, stjórnvöldum og aðilum á vinnumarkaði, að ná samkomulagi sem leitt hefur til þess að verðbólgan hefur nánast horfið. Það hefur gert það að verkum að menn geta núna horft miklu lengra fram í tímann. Landslagið hefur breyst og sú þoka sem var yfir öllu meðan verðbólgan ruglaði okkur í ríminu er ekki lengur.

Það sem við ræðum hér í dag er liður í undirbúningsstarfsemi. Okkur tekst núna, það er er nýtt, að horfa lengra fram í tímann og erum ekki bundin af viðkomandi kjörtímabili. Eftir því sem umræður hafa orðið hér í dag er það ætlun okkar allra að sjá til þess að við nýtum það einstæða tækifæri sem við höfum til að byggja ofan á mjög gott lífeyriskerfi, gera það enn betra og nota tækifærið nú þegar aldurssamsetning þjóðarinnar er með þeim hætti sem hún er. Íslenska þjóðin er yngri en aðrar þjóðir sem við keppum við og við eigum að nota tækifærið nú til þess að koma í veg fyrir að við stöndum frammi fyrir álíka vandamálum og ýmsir nágrannar okkar gera nú þegar. Ekki þarf annað en að líta til annarra þjóða á Norðurlöndum sem hafa átt í erfiðleikum með sitt velferðarkerfi. Á hverjum degi heyrum við fréttir frá Þýskalandi um að þar sé verið að hækka skatta til að standa undir gegnumstreymiskerfinu og á Ítalíu um þessar mundir er stjórnarkreppan fyrst og fremst vegna þess að menn koma sér ekki saman um hvernig taka skuli á lífeyrismálum þjóðarinnar. Við eigum að forðast þetta. Við höfum tækifæri til þess og mér sýnist umræðan í dag benda til að á þessu sé almennur skilningur.

Umræðan hefur eðlilega snúist um það að nokkru leyti hvernig hægt sé að samræma lífeyrissjóðakerfið og lífeyrisbótakerfið. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt að nauðsynlegt er á allra næstu tímum að fara yfir lífeyrisbótakerfið og taka þar mikilvægar ákvarðanir, m.a. ákvarðanir sem lúta að svokölluðum tekjutengingum. Tekjutengingar hljóta alltaf að verða í því kerfi, einfaldlega vegna þess að þar ætlum við okkur að beina fjármununum til þeirra aðila sem ekki hafa af einhverjum ástæðum getað lagt fjármuni til hliðar. Það þýðir að við ætlum að koma í veg fyrir að hinir sem átt hafa kost á að leggja fé til hliðar og spara á starfsævinni, fái fjármagn í sama mæli. Fyrir vikið hljótum við ávallt að sitja uppi með jaðaráhrif í þessu kerfi. En það þýðir ekki að það kerfi sem nú er við lýði sé óbreytanlegt. Ég tek heils hugar undir það sem menn hafa sagt hér að næsta stórverkefnið í þessum málum hlýtur að vera að takast á við það kerfi og samræma þessi mál. Að því máli þurfa að koma m.a. þeir aðilar sem fjölluðu um mál það sem hér er til umræðu í aðdraganda þess.

Að mínu viti skiptir miklu máli að við útbúum þjóðfélag þar sem sem allra flestir geta verið þátttakendur. Ég held að það skipti miklu máli að viðhalda þeirri hugsun sem er í lífeyrissjóðakerfinu að fólk geti á starfsævinni lagt til hliðar fjármuni sem nýtast alla ævina. Þannig að á grundvelli eigin ákvarðana og eigin sparnaðar geti fólk lifað mannsæmandi lífi, tekið fullan þátt í þjóðfélaginu, þar með verið skattgreiðendur til æviloka og lagt til þjóðfélagsins en ekki einungis verið þiggjendur. Okkur ber að sjálfsögðu að sjá til þess að þeir sem verst eru settir og minnst hafa handa á milli fái fjármuni úr sameiginlegum sjóðum en við eigum einnig að sjá til þess, m.a. með því að haga skattalögum þannig að allir fullfrískir menn geti og vilji leggja til hliðar fjármuni til þess að þeir standi betur að vígi þegar kvöldar á þeirra ævi.

Ég vona að niðurstaðan verði sú að frv. eigi greiða leið í gegnum þingið og vil þakka hv. þm. fyrir þær undirtektir sem komið hafa fram við fyrstu umræðu málsins. Auðvitað hlýtur hv. nefnd að kanna frv. rækilega, en það er allflókið, stórt og viðamikið, og hafa samband við þá aðila sem komu að starfinu. Ég tel að þetta frv. sé liður í þeirri viðleitni að ná sátt milli kynslóða hér á landi. Ég vænti þess að hv. nefnd rannsaki málið fljótt og vel þannig að hægt verði að samþykkja frv. sem lög, helst fyrir næstu áramót þannig að sjóðirnir og aðrir sem þurfa að leggja á sig nokkra undirbúningsvinnu geti hafist handa sem allra fyrst og verið tilbúnir þegar á þarf að halda. En eins og frv. gerir ráð fyrir þá mun það taka gildi í áföngum og að síðustu 1. maí 1999.