Náttúruvernd

Þriðjudaginn 18. nóvember 1997, kl. 18:54:35 (1386)

1997-11-18 18:54:35# 122. lþ. 27.7 fundur 73. mál: #A náttúruvernd# (landslagsvernd) frv., Flm. HG
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[18:54]

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir upplýsingarnar. Ég hef nokkrar áhyggjur af því að afgreiðsla þessa máls dragist. Ég hef oft varað við því sjónarmiði að ætla sér að treysta á heildarendurskoðun viðkomandi lagabálka þegar frv. koma fram sem þokkaleg samstaða er um að feli í sér lagabætur. Það er eiginlega spurning um aðferðir og viðhorf til þess sem kemur fram á Alþingi. Ég er ekki að kveinka mér sem flm. þessa máls sérstaklega heldur að lýsa almennu viðhorfi sem mér finnst að hefði verið farsælt að væri ekki ríkjandi eins og raun ber vitni þannig að þingið tæki málin í áföngum og eftir því sem brýnt verður talið.

Ég met það vissulega ef sú stjórnskipaða nefnd, sem starfar að málinu, lítur á þær tillögur sem liggja fyrir um leið og ég vænti þess að hv. umhvn. taki á málinu í vetur. Það liggur ekki ýkjamikið fyrir nefndinni enn sem komið er af málum frá hæstv. ríkisstjórn þannig að ráðrúm ætti að vera til þess og þá hugsanlega í samráði við þá nefnd sem er að störfum á vegum hæstv. umhvrh. og ítreka að málið gangi til hv. umhvn. að umræðu lokinni.