Förgun mómoldar og húsdýraáburðar

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 13:36:13 (1392)

1997-11-19 13:36:13# 122. lþ. 28.1 fundur 104. mál: #A förgun mómoldar og húsdýraáburðar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[13:36]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason hefur borið fram fyrirspurn um það hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir aðgerðum til að koma í veg fyrir förgun mómoldar og húsdýraáburðar. Eins og hann gat um í framsögu fyrir sinni fyrirspurn er um að ræða mál sem vissulega er þörf á að taka á og sannarlega rétt að eitt af stóru eða erfiðu viðfangsefnum okkar í sambandi við umhverfismál á Íslandi er einmitt eyðing jarðvegs, uppfok og eyðing lands. Það er rétt að benda á að í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar, sem ber heitið Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi, eru sett fram tiltekin markmið eða forgangsröð um meðhöndlun alls úrgangs og þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Að draga úr magni úrgangs. Að endurnota og endurnýta það sem mögulegt er og farga því sem afgangs er á þann veg að það skaði umhverfið sem minnst.``

Hér er auðvitað það markmið sett fyrst að reyna að minnka umfang alls úrgangs og endurnýta það sem mögulegt er, endurvinna eða nota á annan hátt þannig að það sem endanlega þarf að farga sé sem allra minnst.

Þá er í framkvæmdaáætluninni sérstaklega fjallað um endurnýtingu lífræns úrgangs og kveðið á um að samstarfshópur á vegum umhvrn. og landbrn. vinni að því að finna not fyrir afurðir lífræns úrgangs og er nú þegar unnið að því. Í framhaldi af þessu má segja að mikilvægt sé fyrir stjórnvöld og þá auðvitað umhvrn. ásamt öðrum ráðuneytum þar sem það á við, t.d. landbrn. og kannski í einhverjum tilvikum iðnrn. eða sjútvrn. sem kæmu að útfærslu þessa markmiðs og einnig með sveitarfélögum þar sem framkvæmdir eru ekki síst á vegum sveitarfélaga og þau ábyrg fyrir ýmsum þáttum sem varða umhverfismálin, svo sem einhvers konar úrgangi og sorpi, að allir þessir aðilar beiti sér fyrir aðgerðum til að koma í veg fyrir förgun mómoldar og finna leiðir til að nýta húsdýraáburðinn í auknum mæli í sátt við umhverfið. Nú er hann nýttur víða á búum en mörg dæmi eru um að svo er ekki eins og hv. þm. gerði grein fyrir í sínu máli áðan.

Í aprílmánuði sl. skipaði ég starfshóp til að vinna að leiðbeiningum um meðferð úrgangs. Hópurinn mun skila af sér á fyrri hluta næsta árs. Í hópnum er fjallað ítarlega um förgun húsdýraáburðar. Í niðurstöðum hans munu koma fram upplýsingar um magn áburðarefna frá hverri búfjártegund, heppilegar geymslur fyrir búfjáráburð, áburðarmagn til dreifingar á mismunandi land og aðferðir og dreifingartíma búfjáráburðar. Þetta hef ég rætt um við formann nefndarinnar.

Í síðasta mánuði skipaði ég síðan starfshóp sem hefur það hlutverk að leita leiða til að auka nýtingu pappírsúrgangs sem til verður hér á landi. Starfshópurinn skal í því sambandi einnig skoða möguleika á því að nota annan úrgang sem til fellur hér á landi í þeim tilgangi að auka nýtingu eða nýtingarmöguleika á pappírnum. Hér er átt við ýmsan lífrænan úrgang, sem hugsanlegt væri að blanda með einhverju móti saman við pappírinn, t.d. frá svína- og hænsnabúum, sem nýta mætti síðan til uppgræðslu og kemur Landgræðslan að þessu verkefni einnig með okkur. Ég vænti þess að fá niðurstöðu frá þessum starfshópi fyrir áramót.

Sorphirðumál eru hins vegar eins og hv. þingmenn vita verkefni sveitarfélaganna samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Sveitarfélög geta sett sér eigin samþykktir um meðferð úrgangsins. Til dæmis er förgun garðaúrgangs og mómoldar bönnuð og þannig stuðlað að því að nýtanleg efni verði ekki að úrgangi en ég ítreka að ég tel að þetta sé sameiginlegt verkefni sem allir aðilar þurfa að taka á og nokkuð er þegar í gangi á þessu sviði.