Förgun mómoldar og húsdýraáburðar

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 13:40:37 (1393)

1997-11-19 13:40:37# 122. lþ. 28.1 fundur 104. mál: #A förgun mómoldar og húsdýraáburðar# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., RG
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[13:40]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta var athyglisverð fyrirspurn sem hér var sett fram og vonandi að vinna þeirrar nefndar sem ráðherra greindi okkur frá verði til þess að vel verði staðið að málum varðandi förgun mómoldar og húsdýraáburðar. Við þingmenn Reykjaness vorum að koma frá Hafnarfirði þar sem við vorum í heimsókn og þar var hálfgert neyðaróp til okkar um ástandið í Krýsuvík vegna lausagöngu búfjár. Við þingmenn höfum af og til reynt að taka á því máli vegna gróðureyðingar og landbrots í landnámi Ingólfs og reynt að ná samstöðu um það. Það hefur ekki tekist. Hins vegar hefur fjöldi einstaklinga, félagasamtaka og fyrirtækja bundist samtökum um að græða upp landið og kallar sig Gróður fyrir fólk í landnámi Ingólfs. Það er mjög mikilvægt að saman verði leitast við að stöðva jarðvegseyðingu og bæta landgræðslu á þann hátt sem samtökin hafa sett (Forseti hringir.) sér markmið um m.a., virðulegi forseti, að nýta þann úrgang sem til fellur. Það er góð leið sem þar hefur verið valin og vonandi að eftir þessu verði jafnframt farið út um (Forseti hringir.) land. Ég treysti því að ráðherra styðji við bakið á þessum góðu samtökum um að nýta úrgang (Forseti hringir.) og gróðurmold til þess að bæta landið eins og samtökin beita sér fyrir.