Losun koldíoxíðs í andrúmsloft

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 13:49:51 (1398)

1997-11-19 13:49:51# 122. lþ. 28.2 fundur 232. mál: #A losun koldíoxíðs í andrúmsloft# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[13:49]

Fyrirspyrjandi (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Um heim allan hefur farið fram á síðustu missirum mikil umræða um umhverfismál, ekki síst um losun efna í andrúmsloftið. Það er skiljanlegt að sú umræða skuli fara fram því að umhverfisáhrif vegna losunar loftefna í andrúmsloftið er farin að ógna, segja margir, tilverunni og framtíðinni. Veður gerast válynd, breytingar á veðurkerfum eru farin að ógna lífríki jarðar. Þetta tengist umræðu um væntanlega Kyoto-ráðstefnu þar sem þjóðir heims munu reyna að koma sér saman um aðgerðir gegn þessari vá.

Ég tel, herra forseti, að Íslendingar hafi í raun stigið stærra skref en nokkur önnur þjóð á þessu sviði á árunum 1950--1980. Lengst af þessari öld hefur aðalorkugjafi Íslendinga til hitunar húsa verið kol og olía. Þannig hygg ég að margir muni eftir kolakrananum í Reykjavíkurhöfn og fjallháum kolabingjum og miklum innflutningi á olíu til að hita upp hús og brennslu þessara orkugjafa með tilheyrandi mengun í andrúmsloftið. Það þarf ekki mikla speki til að álykta um þá mengun sem þessir orkugjafar ollu.

Enn er það svo að flestar þjóðir heimsins hita hús sín með svonefndum svörtum orkugjöfum, þ.e. kolum og olíu. Ég er ekki viss um að allir geri sér grein fyrir því hversu mikilvæg skref við Íslendingar stigum með hitaveituvæðingunni. Það er afskaplega dýrmætt fyrir okkur að geta ráðið við nýtingu vistvænnar orku eins og við sýndum þegar við ákváðum að leggja hitaveitu í hús okkar. Auðvitað réð þar mestu að við höfðum til þess djörfungina, pólitískan vilja og síðast en ekki síst menntun og færni íslensks tæknifólks.

Mjög fróðlegt væri, herra forseti, að vita hvaða áhrif þessi hitaveituvæðing hefur haft og því varpa ég þeirri fyrirspurn til hæstv. umhvrh. hvaða breytingar urðu á losun koldíoxíðs í andrúmsloftið við Ísland á árunum 1950--1980 í kjölfar þess að hitaveita leysti olíu- og kolakyndingu af hólmi.