Lokun vínveitingastaða

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 14:44:11 (1414)

1997-11-19 14:44:11# 122. lþ. 28.7 fundur 234. mál: #A lokun vínveitingastaða# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[14:44]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrsta lið fyrirspurnarinnar er það að segja að á síðustu tveimur árum hefur þessu úrræði samkvæmt 4. mgr. 12. gr. áfengislaganna verið beitt 14 sinnum á landinu öllu, fimm sinnum í Reykjavík, fjórum sinnum á Akureyri, þrisvar sinnum í Vestmannaeyjum og tvisvar sinnum á Ísafirði. En það skal tekið fram að hingað til hafa lögreglustjórar lítið notað heimildina í 4. mgr. 12. gr. áfengislaganna til að binda leyfin skilyrðum, heldur hafa þeir sett skilyrði þessi í skemmtanaleyfinu. Það kemur fram í svörum sumra lögreglustjóra til ráðuneytisins að svipting skemmtanaleyfa hafi því verið mun tíðari en svipting áfengisleyfa. Þá kemur fram að lögreglustjórar hafa svipt staði vínveitingaleyfi á grundvelli annarra greina áfengislaga eins og t.d. 4. mgr. 20. gr. er fjallar um lágmarksaldur gesta.

Um annan lið fyrirspurnarinnar er það að segja að það er rétt sem þar kemur fram að staðið hefur yfir endurskoðun á áfengislögunum og ég vænti þess að því starfi verði lokið í næsta mánuði og unnt verði að koma inn í þingið frv. að breytingum á áfengislögunum annaðhvort fyrir jól eða þá í byrjun þings eftir áramót. En að því er stefnt af hálfu ráðuneytisins að endurskoðunarstarfinu ljúki í næsta mánuði.