Framkvæmd áfengislaga

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 14:52:01 (1418)

1997-11-19 14:52:01# 122. lþ. 28.6 fundur 233. mál: #A framkvæmd áfengislaga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[14:52]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Varðandi þá munnlegu fyrirspurn sem hér kom fram og ekki er á hinu prentaða þingskjali, þá skal ég ekki alveg fullyrða um hver staðan er í þessu efni, en það kæmi mér ekki á óvart að þarna væri vísað til nýrra lögbundinna reglna í stjórnsýslulögum um andmælarétt. En ég þori ekki að fullyrða að það séu þau sjónarmið sem viðmælendur hv. þm. hafa haft í frammi, en eðlilegt er að skoða það.

Varðandi þær fyrirspurnir sem hér liggja fyrir, þá er það að segja um fyrstu fyrirspurnina að formaður nefndarinnar er Þórhallur Halldórsson, fyrrv. forstöðumaður, skipaður af dómsmrh. án tilnefningar, Sigrún Sturludóttir tilnefnd af Áfengisvarnaráði og Einar Olgeirsson hótelstjóri, tilnefndur af Sambandi veitinga- og gistihúsa.

Önnur spurningin var um hlutverk nefndarinnar, en það felst í því að meta hvort veitingastaður telst fyrsta flokks. Við mat þetta kannar nefndin húsakynni veitingastaðarins sem í hlut á og búnað hans og eins hvort veitingastaðurinn hafi á boðstólum mat og fjölbreytt úrval óáfengra drykkja.

Þær kröfur sem nefndin gerir koma fram í sérstökum leiðbeiningum fyrir umsækjendur um leyfi fyrir veitingastaði til áfengisveitinga sem er birt opinbert plagg og þingmenn eiga aðgang að. Nú er ekki tími til að lesa það hér upp í heilu lagi en það væri einnig hægt, ef vilji væri fyrir hendi, að svara ef fyrirspurn kæmi fram um að birta það með skriflegu svari við fyrirspurn. En þær almennu viðmiðanir sem stuðst er við í bréfinu byggja á ákvæðum áfengislaganna sjálfra.

Þriðja fyrirspurnin lýtur að því hvort ráðherra telji að allir vínveitingastaðir séu fyrsta flokks. Um það er að segja að samkvæmt lögunum er það ekki í verkahring ráðherra að leggja á það mat heldur umræddrar nefndar og fyrir þá sök hefur hvorki ráðherrann né ráðuneytið gert sérstaka úttekt á því umfram þær niðurstöður sem fyrir liggja í mati nefndarinnar. Niðurstöðum þeirrar nefndar er hins vegar hægt að skjóta með stjórnsýslukæru til ráðuneytisins ef ágreiningur er um þær.