Framkvæmd áfengislaga

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 14:56:33 (1420)

1997-11-19 14:56:33# 122. lþ. 28.6 fundur 233. mál: #A framkvæmd áfengislaga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[14:56]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin. Ég held að það sé kannski aðalatriðið sem hv. 2. þm. Norðurl. v. vék aðeins að hér áðan, að reynt verði að festa hér á lögbók landsins ákvæði sem eru sanngjörn, skýr og gagnsæ. Lögin eins og þau eru núna eru úrelt og ógagnsæ og flókin og skila ekki árangri, það er alveg ljóst. Ég held að það skipti þess vegna mjög miklu máli að ákvæðum áfengislaga verði sem fyrst breytt þannig að hægt verði að setja niður einhverjar reglur og semja um fyrirkomulag þessara mála að siðaðra manna hætti.

Ég veit að hv. þm. sem hafa vanið komur sínar í gleðiborgir nágrannalandanna, eins og t.d. Kaupmannahöfn, á síðkvöldum og nóttum eða t.d. til New York, svo að ég nefni dæmi um aðra heimsborg sem er engu minni en Reykjavík, sé ljóst að þar er hægt að hafa skemmtistarfsemi fram eftir nóttum án þess að það trufli umhverfi að nokkru leyti. Við búum við afbrigðilega slæmt ástand í þessu efni og það er alveg óþarfi að hafa þetta svona. Þessar fyrirspurnir voru bornar fram því ég vildi koma málinu hér á dagskrá og mér þykir vænt um að undirtektir hæstv. dómsmrh. voru skýrar og góðar í þessum efnum.

Varðandi það atriði sem ég spurði um áðan, að lögreglan gæti ekki lengur svipt veitingastaði vínveitingaleyfum um næstu helgi á eftir þá helgi sem þeir hafa gerst brotlegir, þá hygg ég að það sér rétt hjá hæstv. ráðherra að menn hafi borið þetta fyrir sig á grundvelli andmælaréttar stjórnsýslulaga og það hafi verið samtök veitingahúsaeigenda sem beittu þrýstingi í þessum efnum. Ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst það háskalegt ef menn geta beitt þrýstingi af þessu tagi til þess að koma í veg fyrir að atvinnustarfsemi eins og þessi sé í sátt við umhverfi sitt í sjálfum höfuðstað landsins.

Ég þakka að öðru leyti fyrir ágæta umræðu sem hér hefur farið fram.