Starfsstöð Vegagerðarinnar í Rangárvallasýslu

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 15:24:02 (1431)

1997-11-19 15:24:02# 122. lþ. 28.10 fundur 205. mál: #A starfsstöð Vegagerðarinnar í Rangárvallasýslu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:24]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Þar sem daglegur rekstur fellur undir vegamálastjóra og hann ber ábyrgð á honum þá hlaut ég að óska eftir því að fá svör hans við viðkomandi spurningum sem ég mun hér skýra frá í svari. Svar við fyrstu fyrirspurninni er svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

,,Niðurlagning þjónustustöðvar Vegagerðarinnar á Hvolsvelli er hluti af hagræðingu í almennum rekstri stofnunarinnar sem stjórnendum hennar ber að sinna og bera ábyrgð á í samræmi við vegamál.``

Önnur spurningin er: Hvaða rök liggja að baki ákvörðuninni? Eru þau fjárhags-, skipulags- eða stjórnunarlegs eðlis? Um það segir Vegagerðin, með leyfi hæstv. forseta:

,,Ástæður þess að þjónustustöðinni á Hvolsvelli er lokað eru bæði fjárhags- og skipulagslegar eins og nánar verður vikið að í svörum við spurningum 3 og 4.

Spurning 3 hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: ,,Hver er áætlaður sparnaður Vegagerðarinnar vegna lokunar starfsstöðvarinnar? Hvernig hyggst stofnunin ná honum og hvernig verður því fé varið? Hvert er áætlað söluverð áhaldahússins á Hvolsvelli?``

Svar, með leyfi hæstv. forseta:

,,Beinn rekstrarkostnaður þjónustustöðvarinnar á Hvolsvelli var 7,4 millj. kr. árið 1996 og er áætlaður 8,1 millj. kr. í rekstraráætlun fyrir þetta ár. Þessi upphæð ætti að sparast að mestu leyti. Til viðbótar ætti að nást betri nýting á tækjum Vegagerðarinnar á Selfossi og í Vík. Ef miðað er við reynslu Vegagerðarinnar af útboðum ætti einnig að nást fram einhver sparnaður með því að bjóða út hluta þeirrar starfsemi sem sinnt hefur verið frá þjónustumiðstöðinni á Hvolsvelli. Áformað er að gera tilraun með slíkt útboð. Tekið skal fram að sparnaður sá sem fjallað var um hér að framan næst ekki í einu vetfangi við það að leggja þjónustumiðstöðina niður, en til lengri tíma litið virðist raunhæft að gera sér vonir um að hann geti numið a.m.k. 8--10 millj. kr. á ári.

Aðgerðir þær sem hér er fjallað um eru hluti af þeirri almennu stefnu Vegagerðarinnar að haga rekstri á eins hagkvæman hátt og unnt er jafnframt því sem vegfarendum er veitt eins góð þjónusta og fjárhagur leyfir hverju sinni. Ráðstöfun sparnaðar vegna sérstakra aðgerða hefur yfirleitt ekki verið bundin við tiltekin verkefni og það hefur heldur ekki verið gert hér. Söluverð áhaldahússins á Hvolsvelli hefur ekki verið áætlað en brunabótamat þess er um 17,7 millj. kr.``

Þá er spurt: Hver er heildarstefna Vegagerðarinnar varðandi lokun starfsstöðva annars staðar en á Suðurlandi. Vegagerðin svarar því svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Starfsemi Vegagerðarinnar hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og áratugum. Áður beindist starfsemin einkum að nýframkvæmdum og viðhaldi. Almenn þjónusta kom þar á eftir. Verkefnum stýrðu margir verkstjórar og voru svæði þeirra yfirleitt smá. Fyrir 15--20 árum var farið að bjóða nýframkvæmdir út í verulegum mæli og urðu á tiltölulega fáum árum þau umskipti að langflestar og þar á meðal allar stærri nýframkvæmdir, fóru í útboð. Í framhaldi af útboðum nýframkvæmda var farið að bjóða út viðhaldsverkefni.

Þróunin var svipuð og er nú svo komið að meginhluti slíkra verkefna, þar á meðal öll hin stærri, eru boðin út. Þá er einnig farið að bjóða út hluta þjónustuverkefna. Hefur þar fram til þessa einkum verið um vetrarþjónustu, snjómokstur, að ræða. Horfur eru á að framhald verði á þessari þróun og er það í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um útboð á verkefnum á vegum ríkisstofnana. Þessi þróun hefur haft í för með sér verulega fækkun verkstjóra og annarra fastra starfsmanna Vegagerðarinnar jafnframt því sem vinnusvæði hafa stækkað.

Jafnframt fyrrgreindum breytingum hefur vegakerfið tekið miklum framförum. Vegalengdir hafa styst og ferðatími þó enn meir. Þessi atriði hafa kallað á breytingar á starfsemi Vegagerðarinnar til viðbótar við þau atriði sem fyrr voru talin. Hluti af þessum breytingum er fækkun þjónustusvæða og vinnuflokka. Meðal þjónustustöðva sem lagðar hafa verið niður á liðnum árum má nefna Akranes, Þingeyri, Flateyri og Blönduós. Um næstkomandi áramót er áformað að hætta rekstri járnsmiðju í Reykjavík, trésmiðju í Reykjavík og efnisvinnsluflokks malara á Akureyri auk þjónustumiðstöðvar á Hvolsvelli. Áfram verður unnið að því að starfsemi Vegagerðarinnar verði hagað á sem hagkvæmastan hátt eftir því sem vegakerfið breytist og í samræmi við þau verkefni sem fyrir liggja hverju sinni.``

Við þetta vil ég svo bæta að eftir að Ólafsfjarðargöng voru fullbúin var lagt niður starf starfsmanns Vegagerðarinnar í Ólafsfirði. Ég vil líka bæta því við að ég hef falið flugmálastjóra og vegamálastjóra að gera áætlun um að þessar stofnanir báðar standi að þeim stöðvum sem eru í sambandi við Vegagerðina og flugvöllinn, Vopnafirði, Þórshöfn og Hólmavík.