Starfsstöð Vegagerðarinnar í Rangárvallasýslu

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 15:31:19 (1433)

1997-11-19 15:31:19# 122. lþ. 28.10 fundur 205. mál: #A starfsstöð Vegagerðarinnar í Rangárvallasýslu# fsp. (til munnl.) frá samgrh., GL
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:31]

Guðmundur Lárusson:

Herra forseti. Það er svolítið sérkennilegt að hlusta á hæstv. samgrh. lesa upp úr skýrslum frá sínum undirmönnum og gera þau orð að sínum. Sérkennilegast fannst mér samt að heyra hæstv. ráðherra svara fyrstu spurningu hv. þm. í þessum efnum.

En ég held að hæstv. ráðherra verði að svara þessu miklu skýrar: Hafa störf þessara starfsstöðvar á Hvolsvelli verið einskis virði og einskis metin? Kemur enginn aukakostnaður á móti þeim kostnaði sem er talað um að spara þarna? Ég trúi því ekki, herra forseti, að það sé skoðun hæstv. ráðherra að svo sé og því hefði ég mjög gjarnan viljað að starfsmenn þessarar starfsstöðvar á Hvolsvelli hefðu hlýtt á mál hæstv. ráðherra hér því að slíka lítilsvirðingu hef ég sjaldan heyrt í garð vinnandi manna eins og þarna.

Auðvitað er ekki lausnin sú, og málið er ekki svo einfalt, að leggja þetta niður og segja að þar með hafi allir þeir fjármunir sem hafa farið til þessa verkefnis, fjármunir sem eru ekki mjög miklir, sparast. Auðvitað kemur annar kostnaður þarna á móti. Það ber að hafa í huga.