Þungaskattur

Miðvikudaginn 19. nóvember 1997, kl. 15:46:27 (1439)

1997-11-19 15:46:27# 122. lþ. 28.11 fundur 272. mál: #A þungaskattur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., fjmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[15:46]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Ég þarf í sjálfu sér ekki miklu við þetta að bæta. Ég skil vel áhyggjur hv. fyrirspyrjanda. Þetta er mál sem við þekkjum afskaplega vel sem fjöllum um það og satt að segja hafði ég gert mér sjálfur vonir um að hægt yrði að festa í lög ákvæði sem dygðu núna um þessi áramót, en eins og hv. fyrirspyrjandi sagði réttilega þá var lögunum frestað af praktískum ástæðum. Þetta á sér sögulegar skýringar vegna þess að þegar fyrst var farið af stað að sinna þessu máli, þá var gert ráð fyrir því að endurgreiðsluleiðin yrði farin. En um það leyti sem menn voru að ná niðurstöðu í því máli kom í ljós að Danir höfðu ákveðið að breyta hjá sér yfir í olíulitun og það byggðist á nýrri tækni. Síðan frestaðist það í Danmörku og það er líklega ekki fyrr en núna 1. desember sem það verður tekið upp í Danmörku en menn hafa fylgst mjög vel með breytingunum þar. Þetta hefur frestað því að þessar eðlilegu breytingar gætu átt sér stað.

Á sama tíma hefur það gerst að ýmsir þeir sem gagnrýndu fyrra kerfi á grundvelli þess að innheimtur væru slæmar hafa bent á að þungaskatturinn heimtist miklu betur inn núna en áður og þess vegna hafa þeir sagt að það kannski ætti ekki að breyta núverandi kerfi og það flækir málið að sjálfsögðu.

Breytingar á lögunum frá 1987 eru ekkert einfaldar. Við verðum að gæta að því að þarna er um að ræða mikilvægan en jafnframt viðkvæman tekjustofn Vegagerðarinnar. Ég held að það væri affarasælast að við stefndum að því að gera þessar viðunandi breytingar um önnur áramót. Það er rúmt ár. Ég held að menn hljóti að geta lifað við það.

Varðandi það hvort bílstjórar ætli sér að taka upp hætti Frakka og leika fyrir okkur flautukonsert hérna fyrir utan Alþingishúsið, þá út af fyrir sig er ekkert við því að segja ef menn telja að það skili einhverjum árangri. Falleg músik lætur oft vel í eyrum. En það sem þó skiptir alltaf mestu máli er að árangur og niðurstaða verði viðunandi fyrir sem flesta.