1997-11-19 16:18:08# 122. lþ. 28.92 fundur 96#B rekstrargrundvöllur landvinnslu í samkeppni við sjóvinnslu um borð í frystiskipum# (umræður utan dagskrár), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[16:18]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég veit nú ekki hvað gaf hv. fyrirspyrjanda tilefni til þess að æsa sig svona í lokin. Ég taldi mig ekki hafa gefið honum tilefni til þess að fara svona upp á háa c-ið. Ég vona alla vega að hann hafi ekki fyrst við það þó að hér væru sagðar einfaldar staðreyndir um hlut frystitogaranna og það er mjög mikilvægt að menn hafi staðreyndir fyrir framan sig.

Í skýrslu fiskvinnslunefndar sem birt var sl. vor kemur mjög skýrt fram að á undanförnum árum, fram á árið 1996, hafði hlutur fullvinnsluskipanna aukist, en ekki á kostnað landvinnslunnar heldur vegna þess að minna hefur verið flutt út af óunnum fiski. Landvinnslan hafði haldið sama hlutfalli og áður í vinnslu fisks. Frystiskipin höfðu aukið hlutfallið en á kostnað minni útflutnings á óunnum fiski. Ég las hér svo staðreyndir um það hvernig þetta hefur breyst í einstökum tegundum, tiltölulega lítið í þorski en mikið í karfa og á því eru eðlilegar skýringar. Ég vona að hv. þm. sé ekki að hlaupa upp á háa c vegna þess að svona einfaldar staðreyndir eru sagðar um þetta mál. Auðvitað skiptir miklu máli að tryggt sé að samkeppnisskilyrðin séu eðlileg.

Ég óskaði nýlega eftir því af hálfu Þjóðhagsstofnunar að hún gerði grein fyrir afkomumismun og helstu ástæðum afkomumismunar í landvinnslu og sjóvinnslu. Afkomumunurinn hefur minnkað. 1993 var rúmlega 10% hagnaður af frystiskipum en tæplega 2% tap af ísfiskveiðum og vinnslu. Núna er tap ísfiskveiða og vinnslu tæplega 3% (Forseti hringir.) en hagnaður frystiskipanna 2,3%. Þjóhagsstofnun gerir nokkra grein fyrir helstu ástæðum þessa. Herra forseti. Því miður er ekki hægt að vitna til þess hér en þar eru ýmis atriði svo sem mismunandi launakostnaður og ýmis önnur rekstrarleg aðstaða. Ég vara menn við því að halda að stjórnmálaleg stýring á því hvernig menn sækja sjóinn leysi vanda fiskvinnslunnar. Það er fyrst og fremst ávísun á það að gera þann vanda meiri en hann er í dag.