Framtíðarskipan raforkumála

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 11:39:36 (1469)

1997-11-20 11:39:36# 122. lþ. 30.2 fundur 227. mál: #A framtíðarskipan raforkumála# þál., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:39]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég fæ hér á eftir tækifæri til þess að svara hv. þm. því sem snýr að umhverfismálunum og þeim hækkunum sem núna eru að eiga sér stað hjá Landsvirkjun. Í raun er það þannig að hv. þm. þekkir þá forsögu örlítið betur en sá sem hér stendur.

Eitt er mjög mikilvægt. Það er þegar hv. þingmenn koma og vilja láta taka sig alvarlega í umræðunni að ekki sé farið með slíkar fullyrðingar eins og gert var varðandi orkujöfnunina að ekki sé minnst á það í tillögunni. Þá er um tvennt að ræða: Annaðhvort ætlar hv. þm. að fara með blekkingaleik inn í umræðuna eða hv. þm. hefur ekki lesið þáltill. Verð ég þá að benda hv. þm. á það að neðst á bls. 4 segir einfaldlega, með leyfi forseta: ,,Í þessu sambandi má benda á að við gerð gjaldskrár má sjá til þess að meginflutningskerfið eða Landsnetið taki við því hlutverki sem Landsvirkjun hefur nú varðandi jöfnun orkuverðs.``

Með öðrum orðum, gengið er út frá því sama og er í núverandi skipulagi fyrir utan það að með breyttu fyrirkomulagi gefst enn frekar tækifæri í gegnum Landsnetið að ganga enn lengra til jöfnunar orkuverðs í landinu en nú er gert og hafa þær reglur sem þar yrði farið eftir miklu skýrari en menn eru með í dag.