Goethe-stofnunin í Reykjavík

Fimmtudaginn 20. nóvember 1997, kl. 15:08:12 (1510)

1997-11-20 15:08:12# 122. lþ. 31.6 fundur 256. mál: #A Goethe-stofnunin í Reykjavík# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur

[15:08]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. talsmanni utanrmn., Tómasi Inga Olrich, fyrir þá framsögðu sem hann hefur flutt fyrir hönd nefndarinnar og tek undir þau sjónarmið sem fylgdu í ræðu hans um nauðsynina á því að styrkja menningartengsl Íslands og Þýskalands.

Ég vil jafnframt þakka hv. utanrmn. fyrir góða og skjóta vinnu í málinu varðandi tillöguna um Goethe-stofnunina í Reykjavík. Ég mæli þar örugglega fyrir munn okkar flutningsmanna níu, annarra auk mín sem fluttu þetta mál inn í þingið. Ég tel að afgreiðsla utanrmn. beri vott um þann hug sem býr að baki væntanlegri samþykkt þingsins í málinu og tel afar mikilvægt að það skuli koma fram svo ljóst og skjótt og hér hefur orðið með áliti hv. utanrmn.