Tenging bóta almannatrygginga við laun

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 13:39:04 (1513)

1997-12-02 13:39:04# 122. lþ. 32.2 fundur 103#B tenging bóta almannatrygginga við laun# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[13:39]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. nánari frétta af þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að tengja lífeyrisgreiðslur á nýjan leik með við launaþróun eða laun eða launavísitölu. Fréttir af þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar hafa verið nokkuð véfréttarlegar svo ekki sé fastara að orði kveðið. Hér er auðvitað stórmál á ferð og eðlilegt að hæstv. ríkisstjórn geri sem fyrst skýra grein fyrir því hvað í ákvörðun hennar er fólgið. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort þetta í fyrsta lagi feli í sér viðurkenningu á því að afnám launatengingar lífeyrisgreiðslna og atvinnuleysisbóta undir lok ársins 1995 hafi verið mistök og hvort hæstv. ríkisstjórn sé með þessari ákvörðun að viðurkenna og leiðrétta mistökin. Í öðru lagi hvernig þessari tengingu verði háttað. Verður um að ræða fasta lögbundna tengingu? Hvernig verður viðmiðunin? Verða bæturnar framreiknaðar og uppreiknaðar frá því sem þær voru á árinu 1995 eða verður um aðra viðmiðun að ræða? Verða allar lífeyrisgreiðslur tengdar eða aðeins sumar?

Loks vil ég spyrja hvort sambærilegra breytinga sé að vænta eða hvort það felist í ákvörðun ríkisstjórnarinnar að sams konar breytingar verði gerðar hvað atvinnuleysisbætur snertir, hvort þær verði einnig tengdar beint eða á annan hátt við launavísitölu eða launaþróun.