Tenging bóta almannatrygginga við laun

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 13:41:03 (1514)

1997-12-02 13:41:03# 122. lþ. 32.2 fundur 103#B tenging bóta almannatrygginga við laun# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[13:41]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Í svokölluðum bandormi ríkisstjórnarinnar sem hæstv. forsrh. mun mæla fyrir er að finna ýmsar ráðstafanir sem grípa þarf til svo fjárlög standist samkvæmt fjárlagafrv. Eins og hv. alþm. muna, þá þurfti að breyta almannatryggingalögunum því í þeim var að finna bráðabirgðaákvæði sem gilti til loka þessa árs. Niðurstaða ríkisstjórnarinnar er sú varðandi tryggingabætur almannatryggingakerfisins að þær hækki í framtíðinni samkvæmt ákvæðum fjárlaga en þó með viðmiðun í almenna launaþróun í landinu. Síðan er tekið fram, ef ég man þetta rétt, ég hef þetta ekki við höndina, að þróunin skuli aldrei vera lakari en nemur verðlagsþróun. Það þýðir að ef það gerist að laun þróist ekki með sama hætti og verðlag heldur lakar, þá er miðað við verðlagið. Þetta eru megindrættirnir í lagagreininni. Að sjálfsögðu er miðað við að lögin taki gildi frá næstu áramótum þannig að viðmiðunin, ef svo á að kalla, er frá næstu áramótum. En ég vil taka það fram að hækkun almannatryggingabótanna að undanförnu hefur verið meiri en sem hækkun almennra launa. Það þarf að undirstrika. Og þessi viðmiðun mun ná til allra bóta almannatryggingakerfisins en ekki til atvinnuleysistryggingabóta, að því er ég best veit.