Tenging bóta almannatrygginga við laun

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 13:43:01 (1515)

1997-12-02 13:43:01# 122. lþ. 32.2 fundur 103#B tenging bóta almannatrygginga við laun# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[13:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin en hlýt jafnframt að lýsa því yfir að ég óttast að sá grunur minn hafi verið staðfestur í svörum hæstv. fjmh. um að hér sé á ferðinni afar loðin aðferð. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra sagði að þetta skyldi hækka samkvæmt niðurstöðu fjárlaga hverju sinni en þó taka mið af launavísitölu. Þó er það ekki bundið og jafnframt að útkoma lífeyrisþeganna skuli aldrei vera lakari en sem nemur verðlagsþróun á hverjum tíma. Þetta þarf ekki að segja mjög mikið, nema síður sé, en staðfestir þann ótta að það sé einmitt ekki ætlunin að tryggja lífeyrisþegunum sambærilegar kjarabætur og öðrum í landinu.

Nú háttar svo til að menn eru að gera sér vonir um að launaþróunin verði hagstæðari en verðlagsþróunin. Ætlunin var að semja um raunaukningu kaupmáttar á gildistíma núverandi kjarasamninga og þess vegna þyrftu lífeyrisbreytingarnar að fylgja þeirri þróun en ekki bara verðlaginu.