Tenging bóta almannatrygginga við laun

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 13:45:51 (1517)

1997-12-02 13:45:51# 122. lþ. 32.2 fundur 103#B tenging bóta almannatrygginga við laun# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[13:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta skýrist auðvitað betur þegar bandormur hæstv. forsrh. kemur, sem vonandi verður nú bráðum því ekki fer að veita af að líta á þá hluti --- kominn desember. Í öðru lagi kýs ég að túlka svör hæstv. forsrh., nei fjmrh. --- það er nú víst óþarfi að titla hæstv. ráðherra sem forsrh. þó hann sé gjarnan talinn eins konar yfirfagráðherra --- þannig að ekki standi til að tengja atvinnuleysisbætur. Um það tjáði hæstv. ráðherra sig ekki en ég geri ráð fyrir að hann hefði látið það koma fram ef til stæði að tengja þær með sama hætti. Í þriðja lagi er náttúrlega ódýrt hjá hæstv. ráðherra að tala um að lífeyrisgreiðslurnar hafi að undanförnu hækkað meira en laun, eftir skerðingarnar sem á þeim voru orðnar frá 1995, það verður auðvitað að taka tímabilið í heild sinni. Hæstv. ráðherra svaraði því ekki hvort lífeyrisþegum yrðu tryggðar fullar framreiknaðar upphæðir frá 1995. Ég held, herra forseti, að því miður sé hér leiksýning á ferðinni hjá hæstv. ríkisstjórn. Ríkisstjórnin hefur talið nauðsynlegt að grípa til einhverra aðgerða til að lægja öldur og minnka þann þrýsting sem á stjórninni hefur verið að undanförnu vegna réttmætrar reiði lífeyrisþega yfir þeim breytingum sem hæstv. ríkisstjórn hefur gert.