Kostnaður við löggæslu

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 13:52:07 (1521)

1997-12-02 13:52:07# 122. lþ. 32.2 fundur 104#B kostnaður við löggæslu# (óundirbúin fsp.), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[13:52]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svarið. Hins vegar fannst mér ekki koma nógu skýrt fram í svari hæstv. ráðherra hvort mögulegt væri að breyta þessu vegna þess að, eins og kom fram í fyrirspurn minni, þá er um ákveðna mismunun að ræða sem við ræðum ákaflega sjaldan. Þegar við berum saman höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina gleymast þættir eins og þessir. Í nýrri skýrslu Byggðastofnunar, sem kynnt var í gær varðandi landsbyggðina og höfuðborgarsvæðið, kemur einmitt fram að menningarlíf á landsbyggðinni líður m.a. fyrir þetta --- að við erum að borga þarna kostnað sem ekki er lagður á hér á höfuðborgarsvæðinu. Og eins og kom skýrt fram í fyrirspurn minni þá er oft og tíðum um fjáröflun að ræða fyrir félagasamtök sem hefur síðan ómæld áhrif í viðkomandi byggðarlögum. Þess vegna hvet ég hæstv. dómsmrh. til að taka þetta til gaumgæfilegrar athugunar og breyta lögunum.