Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 02. desember 1997, kl. 14:35:56 (1540)

1997-12-02 14:35:56# 122. lþ. 32.4 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[14:35]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að það hafi verið mismæli hjá hv. þm. þegar hann orðaði það á þann veg að gildandi reglur útilokuðu það að menn stækkuðu skip umfram þá rúmmetra sem fyrir eru því að að sjálfsögðu eru menn alveg frjálsir að því að stækka skip sín meir en þau skip sem þeir hafa fyrir. En þá verða þeir að kaupa rúmmetra þar á móti. Það hefur með öðrum orðum verið lagt á útgerðarmenn að taka þannig þátt í því að hraða þróuninni að betra jafnvægi á milli sóknargetu fiskiskipaflotans og afrakstursgetu fiskstofnanna og sá kostnaður hefur að hluta til verið lagður á útgerðarmennina með reglum af þessu tagi. Menn hafa því getað tekið slíkar ákvarðanir. En það hefur kostað útgerðina ákveðna fjármuni. Á því er auðvitað mjög veigamikill munur. Ég vildi að þetta væri alveg skýrt vegna framhalds umræðunnar, herra forseti.