Breiðband Pósts og síma hf.

Fimmtudaginn 04. desember 1997, kl. 13:39:43 (1633)

1997-12-04 13:39:43# 122. lþ. 35.92 fundur 110#B breiðband Pósts og síma hf.# (umræður utan dagskrár), samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 35. fundur

[13:39]

Samgönguráðherra (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég get ómögulega neitað því að þegar kemur að því að svara hv. þm. þá dettur manni stundum í hug að maður sé fremur í sporum Marteins Mosdals en að ráðherra komi upp til að svara spurningum alvörugefins þingmanns sem hefur undirbúið sig vel áður en hann tekur til máls. Svo er mér farið núna að mér finnst einhvern veginn að kannski væri það rétt hjá hv. þm. að Marteinn Mosdal væri betur til þess fallinn að svara honum og eiga við hann orðastað en ég. Það má kannski spyrja hæstv. forseta hvort í þessu samhengi sé rétt að segja háttvirtur Marteinn Mosdal. En að þessu slepptu ...

(Forseti (ÓE): Forseti biður hv. þm. og hæstv. ráðherra að gæta hófs í orðavali og samlíkingum.)

Herra forseti. Ég hef nú einungis verið að reyna að skilja samlíkingar hv. þm. og væri kannski rétt að hæstv. forseti hjálpaði mér til þess.

Eins og vænta mátti gætir mikils misskilnings hjá hv. þm. þegar hann ræðir um málefni Landsímans og ekki í fyrsta skipti. Það sem um er að ræða er það að við Íslendingar höfum lagt ljósleiðara hringinn í kringum landið og á síðasta áratug þegar ég, sem formaður menntmn. Nd. var að berjast fyrir því að útvarp yrði frjálst hér á landi, man ég eftir að formaður menntmn. efri deildar, sem á þeim tíma var hv. þm. Eiður Guðnason, hafði miklar áhyggjur af því hvernig færi fyrir ljósleiðaranum og skildist mér alltaf á þeim manni í þann tíð og ýmsum forustumönnum Alþfl. að þeim væri í mun að koma ljósleiðaranum í jörðu til að nota hann. En nú heyrist mér á hv. þm. að hann vilji helst hafa ljósleiðarann í jörðu án þess að nota hann. Geyma hann, jarða hann, eins og búið er að jarða nafn Alþýðuflokksins. En hugmyndin er auðvitað ekki sú að hafa ljósleiðarann þarna án þess að nota hann heldur er hugmyndin sú að reyna að koma á hann umferð. Við erum að horfa til framtíðarinnar vegna þess að breiðbandið er framtíðin. Það er framtíðin vegna þess að við lifum í upplýsingaþjóðfélagi og flestir Íslendingar eru sammála um að nauðsynlegt sé að koma með sem ódýrustum hætti upplýsingum og afþreyingu inn á hvert einasta heimili á landinu.

Eins og sakir standa núna þegar við tölum til dæmis bara um sjónvarpið þá hafa sjónvarpsrásir gengið kaupum og sölum. Mér var sagt fyrir tveim dögum af manni í útvarpsrekstri, sem ekki á sjónvarpsrás, að fyrir nokkrum árum hefði sjónvarpsrás kostað 100 millj. kr. sem viðkomandi félag fékk ókeypis úthlutað frá ríkinu. Við höfum hér tvö sjónvörp, Ríkissjónvarpið og Stöð 2. Í raun og veru einoka þessi sjónvörp aðganginn að fólki hér á landi. Af því að það er ekki auðvelt með öðrum hætti að koma sjónvarpsefni og fréttum til manna. Við erum þess vegna að tala um hvorki meira né minna en skoðanafrelsi. Það sem einu sinni var kallað prentfrelsi en heitir núna fjölmiðlafrelsi. Að fólk um allt land eigi þess kost með nokkru öryggi að geta horft á fjölmiðil, fréttir frá sjónvarpsstöð, sem ekki er í fákeppni heldur verður að sætta sig við að vera í almennri, opinberri samkeppni. Það erum við að gera með því að taka breiðbandið í notkun. Við erum að gefa fleiri aðilum kost á að reka sjónvarpsstöðvar og fréttastöðvar.

Ef við víkjum að því sem hv. þm. sagði að Póstur og sími ætlaði í samkeppni með eigið efni, þá er þetta algjörlega úr lausu lofti gripið og hefur ekki komið til umræðu. Á hinn bóginn er það auðvitað skylda Landsímans að koma umferð á ljósleiðarann til þess að hægt sé að lækka símgjöldin í landinu, til þess að hægt sé að auka fjölbreytni þess efnis sem kemur inn á heimilin. Og lögum samkvæmt og samkvæmt reglum Evrópusambandsins er ekki heimilt að stöðva eða setja hömlur fyrir viðstöðulausu endurvarpi á sjónvarpi ef samningar takast við handhafa efnisins. Það hefur þess vegna aldrei komið til greina að Póstur og sími færi í sjálfstæða starfsemi að þessu leyti. Ég mun, herra forseti, í síðari ræðu minni víkja að eðli þess rekstrar sem breiðbandið er. Þetta eru flókin efni og ekki við því að búast að hægt sé að gera því öllu skil á fimm mínútum.