Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 05. desember 1997, kl. 18:21:41 (1794)

1997-12-05 18:21:41# 122. lþ. 36.13 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 36. fundur

[18:21]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er jafnan þakklátur þegar hv. þm. Kristján Pálsson reynir af skyggnu mannviti að leiða mig á réttari brautir. Hv. þm. heldur því fram að ég hafi ekki skilið það sem í þessu felst. Hvað felst í þessu? Með leyfi forseta, stendur í ákvæði til bráðabirgða:

,,Gengið skal út frá að staðarmörk sveitarfélaga, sem liggja að miðhálendi Íslands, verði framlengd inn til landsins.``

Hvað þýðir það? Það þýðir einfaldlega að ég sem íbúi í Reykjavík og hv. þm. Kristján Pálsson við höfum ekki sama beina stjórnsýslulega valdið til þess að koma að málum miðhálendisins og íbúar þeirra sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu. Að þessu leyti til er ekki jafnstaða með okkur hv. þingmönnum og þeim sem búa í þeim sveitarfélögum og það sætti ég mig ekki við. Að þessu leyti koma orð hv. þm. Kristjáns Pálssonar að kjarna málsins. Þetta er kjarni málsins. Um þetta stendur ágreiningurinn.

Ef íbúar þessara fjölmennu kjördæma eiga að vera beinir eigendur að landinu í gegnum ríkið eiga þeir líka að koma beint að stjórninni með nákvæmlega sama hætti og íbúar þeirra sveitarfélaga sem liggja að miðhálendinu. Þetta er kjarni málsins. Um þetta snýst ágreiningurinn. Þetta land, miðhálendið, verður sameign þjóðarinnar. En flokkur hv. þm. Kristjáns Pálssonar og e.t.v. hann sjálfur ætla að svipta hluta þjóðarinnar rétti til þess að stýra þessari sameign alveg eins og þeir hafa svipt þjóðina réttinum til þess að fara með eign sína í fiskstofnunum í sjónum.