Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 16:13:56 (1823)

1997-12-08 16:13:56# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:13]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef því miður ekki við höndina hve tekjutapið er mikið en ég bendi á að í umsögn fjmrn. er eingöngu verið að tala um útgjöld en ekki tekjutap og á því er gerður munur því samkvæmt lögum þarf að fjalla um útgjöld vegna frumvarpa en í raun og veru ætti tekjutapið að koma fram með öðrum hætti. Ég tel mjög óvíst hvert tekjutapið í raun verður. Það fer eftir því hve maður hefur langan tíma undir, þ.e. þegar 4% voru sett út á sínum tíma var talið að ef allir nytu þess, og það njóta nánast allir 4% núna því að það eru yfirleitt lágmarksiðgjaldagreiðslur hjá einstaklingi, þá jafngilti þetta u.þ.b. 1,8% í skattalækkun. Þegar um er að ræða 2% í viðbót ætti þetta að samsvara 0,8--0,9 prósentustigum í skattalækkun, og menn geta reiknað út frá því en þá er gert ráð fyrir því að allir nýti sér þessi 2%.

Ég tel að þetta muni gerast þannig að smám saman muni menn nýta sér þessi 2% til viðbótar. Þá verður að geta þess, virðulegi forseti, skattgreiðsla þessara peninga frestast því þegar þeir koma til útgreiðslu á sínum tíma þarf að borga af þeim skatt. Það er því dálítið erfitt að setja niður einhverja fasta tölu en mér kæmi ekki á óvart þótt það yrðu um 1.200 millj. kr. ef allir nýta sér þennan viðbótarfrádrátt. En málið er flóknara en svo því í dag er í raun og veru hægt að fara fram hjá þessu ákvæði með því að láta vinnuveitandann greiða þessi 2% og þá getur hann dregið þau frá skatti.