Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 16:17:52 (1825)

1997-12-08 16:17:52# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:17]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki alveg jafneinfalt og hv. þm. Ágúst Einarsson, prófessor í hagfræði, vill vera láta. Það er hárrétt sem kom fram hjá honum að hér er um skattfrestun að ræða þannig að þessir peningar koma ekki inn fyrr en síðar. En þeir koma inn, við megum ekki gleyma því. Þeir koma meira að segja inn með þeim hætti að þeir vextir sem falla á þessa peninga eru síðan skattlagðir með þessum prósentum en ekki með prósentum eins og í fjármagnstekjuskattinum og á því er talsverður munur. Við megum ekki gleyma þessu.

Í þriðja lagi vil ég minna hv. þm. á að launagreiðandinn getur í dag greitt 20, 30--40% af launum í lífeyrissjóð og fengið það frádregið í sínum rekstri. Menn mega ekki gleyma þessu. Ríkið gengur á undan í þessum efnum með því að greiða 11,5% til þeirra starfsmanna sem eru í A-deild sjóðsins þannig að hér er ekki hægt að tala um gjafir til einhverra. Ástæðan fyrir því, og ég get sagt það hérna alveg einlæglega, að ég samþykkti þetta var sú fyrst og fremst að mér er kunnugt um, og það sjá allir vakandi menn, að í framtíðinni verðum við að leggja meira inn í lífeyrissjóðina hvort sem þeir eru frjálsir eða bundnir heldur en við höfum gert hingað til. Við sjáum dæmin m.a. frá Þýskalandi og ég nefni Þýskaland af því að ég veit að hv. þm. þekkir þar til. Það verður að leggja meira fram og ef vaxtastigið lækkar sem menn gera ráð fyrir, að það fari úr 6% niður í kannski 3,5% þegar til lengri tíma er litið, þá þarf að hækka þessar prósentur. Ég held að við séum nú að taka ákvörðun sem óhjákvæmilegt yrði að taka einhvern tíma í framtíðinni hvort sem var. Að því leyti var þetta kannski ekki eins mikil gjöf og hún sýnist, en hugsanlega varð hún samt til að leysa stórkostlegasta vanda sem við höfum staðið frammi fyrir á undanförnum mánuðum.