Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 16:20:04 (1826)

1997-12-08 16:20:04# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:20]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég ætla að nefna þrjú atriði í sambandi við lögin um tekju- og eignarskatt. Í fyrsta lagi það atriði sem rætt var hér síðast og ég held að hljóti að liggja þannig að verið er að gefa með úr ríkissjóði þó nokkuð háar upphæðir frá því sem ella hefði verið. Það hlýtur líka að vera réttlætanlegt að velta því fyrir sér hvort það er skynsamlegt að verja þessum peningum svona úr ríkissjóði eða einhvern veginn öðruvísi. Ég held að það sé ekkert borðleggjandi að þarna hafi menn hitt á einu réttu aðferðina úr því að ákvörðun var tekin um að verja hálfum til einum og hálfum milljarði kr. á ári með þeim hætti sem þarna er gerð tillaga um. Ég viðurkenni að út af fyrir sig er erfitt að áætla nákvæmlega hve mikið þetta verður þegar upp er staðið og málið er ekki þannig að það sé hægt að giska á þetta út frá launasummunni einni heldur þurfa menn að horfa á fleiri hluti í þjóðfélaginu.

Ég er líka þeirrar skoðunar almennt og ég vil láta það koma hér fram að ég tel að okkar mesti efnahagslegi vandi í þjóðfélaginu í dag sé of lítill sparnaður. Út frá því sjónarmiði gæti líka verið skynsamlegt að fara þá leið sem hér er valin og af okkar efnahagssérfræðingum er talið að í raun þyrfti sparnaður í landinu að vera allmörgum milljörðum meiri á ári en hann er. Þá erum við auðvitað fyrst og fremst að hugsa um framtíðina, þá sem taka við þessu efnahagskerfi eftir nokkur ár eða áratugi. Fyrir þá getur verið býsna skuggalegt að vera með jafnlítinn þjóðhagslegan sparnað og þann sem hér er um að ræða í dag. Hann mun enn vera í kringum 17% sem er allt of lítið eða a.m.k. 3% of lítið miðað við það sem þeir telja sem þekkja best til.

Ég er ekki að gera lítið úr þeirri hugsun að menn reyni að ýta hér undir sparnað og geri það jafnvel með þessum hætti. Ég segi að samt sem áður sé ekki einboðið að þetta hafi verið eina skynsamlega leiðin. Auðvitað er umhugsunarvert að það eru nákvæmlega þeir sem hæst láta í sambandi við þessi lífeyrismál sem þarna eru greinilega að fá nokkurn ávinning. Það er alveg augljóst mál að þeir sem stóðu fyrir kröfugerð séreignarsjóðanna á hendur ríkinu eru þarna að fá peninga. Það er með vissum hætti verið að fóðra séreignaliðið með þessum fjármunum. Það er ekki hægt að neita því og það er auðvitað gagnrýnivert eins og þeir hlutir eru settir upp.

Eins er það umhugsunarvert að hagsýslan eða fjárlagaskrifstofa fjmrn. segir að þetta kosti ekki neitt. Ég hef alltaf staðið þá stofnun að því að áætla að allt kosti meira en það kostar, sérstaklega menntamál. Það kostar ævinlega meira en það kostar þegar verið er að reikna út kostnað í menntmrn. eða heilbrrn. En þegar reiknaðar eru út tilfærslur af þessu tagi er niðurstaða fjárlagaskrifstofunnar sú að áhrif þessarar breytingar eru talin óveruleg. Ég segi alveg eins og er að það er mikið álitamál hvort þessi skrifstofa er í raun og veru marktæk eftir þessa yfirlýsingu vegna þess að auðvitað er ekki hægt að taka svona til orða meðan skatttekjur ríkisins eru skornar niður um hundruð millj. kr. frá því sem ella væri.

Í öðru lagi ætlaði ég aðeins að víkja að 1. gr. og er ekkert að finna að henni nema að hún vekur mann til umhugsunar um það hversu lengi okkar skattkerfi á að vera eins vísitölubundið í uppsetningu og það er núna. Ég var í efh.- og viðskn. eða fjárhagsnefnd hér fyrr á öldinni, eins og ég orða það stundum, ásamt hæstv. núv. fjmrh. í árslok 1979, ef ég man rétt, undir forustu Matthíasar Á. Mathiesens þar sem verið var að laga skattkerfið að þessu ógnarlega verðbólgukerfi og það voru miklar slímusetur yfir þeim textum og tókst sumt vel og annað illa, ég held flest illa, þegar upp er staðið. En ég spyr hæstv. fjmrh.: Velta menn því ekkert fyrir sér að losa tekjuskattslögin í raun og veru út úr þessu dæmi, þessum endalausu vísitöluviðmiðunum sem eru sem betur fer að verða meira og minna fornöld í okkar efnahagslífi? Ég vil í öðru lagi inna hæstv. ráðherra eftir því hvað er af þeim málum að frétta. Eru menn ekki að velta því fyrir sér?

Þriðja málið er ekki í frv. um tekju- og eignarskatt eins og það liggur hér fyrir en er þó hluti af lögunum um tekju- og eignarskatt. Þannig er að í tengslum við kjarasamninga fyrr á þessu ári lofaði ríkisstjórnin að lækka skatta um næstu áramót ég hygg um 1,9% og það er allt komið í lögin eins og þau liggja núna fyrir og voru afgreidd á síðasta þingi hygg ég. Nú munu hafa komið upp hugmyndir, eða hvað, um að minnka þessa lækkun þannig að hún verði ekki 1,9% heldur 1,5%. Ég ætla út af fyrir sig ekki að fara með stórar ræður um þetta mál að sinni en ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort það er virkilega rétt að ríkisstjórnin sé með það í huga, nú tíu dögum áður en skattalækkunin á að taka gildi, að falla frá þessari skattalækkun og lækka skattana minna en ráðgert var.

Menn geta haft margvíslegar skoðanir á þessum skattalækkunum, margvíslegar skoðanir á því hvort það var skynsamlegt að setja hlutina svona upp eða ekki. Ég ætla ekkert að fjalla um að hér. En hitt ætla ég hins vegar að segja að það er umhugsunarvert þegar menn eru að breyta grundvallarþáttum kjarasamninganna með því að breyta atriði eins og þessu, ef það er rétt, núna svo að segja örfáum dögum fyrir hátíðir. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort þetta er rétt eða hvort það sé þannig að lögfest skattalækkunaráform sem búið er að hæla sér mikið af, aðallega af hæstv. forsrh. sem alltaf er að hæla sér af þessum hlutum, hvort lögfest skattalækkunar\-áform koma til framkvæmda eða ekki. Er ríkisstjórnin með hugmyndir um að breyta því þannig að skattalækkunin verði ekki sú sem reiknað hefur verið með, m.a. af verkalýðshreyfingunni í tengslum við þá kjarasamninga sem hún gerði? Um þá kjarasamninga mætti ræða margt í þessu samhengi, ég ætla ekki að gera það frekar en ég spyr hæstv. fjmrh. þessara spurninga.