Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 16:47:09 (1833)

1997-12-08 16:47:09# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[16:47]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það sniðug hugmynd hjá ríkisstjórninni að ætlast til þess að sveitarfélögin lækki skattana sína, skeri niður framkvæmdir og standi þannig að málum að það verði til þess að auka kaupmátt. Ótrúlega frumleg ríkisstjórn, verð ég að segja, sem lætur sér detta þetta í hug. En þá hefði verið sniðugt hjá henni og skynsamlegt að nefna þetta við sveitarfélögin. Það láðist ríkisstjórninni að gera og það eru ekki mannasiðir í þjóðfélagi þar sem það er lögfest að ríkisstjórnin eigi að hafa samráð við sveitarfélögin. Veruleikinn er sá að niðurstaðan í þessum samningum var sett á blað og hún var tilkynnt opinberlega í fjölmiðlum og alls staðar án þess að ræða við Samband íslenskra sveitarfélaga. Um leið og þetta spurðist mótmælti formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga þessum vinnubrögðum í fjölmiðlum þannig að það hefur legið fyrir allan tímann, burt séð frá kennarasamningunum, að sveitarfélögin væru ekki tilbúin að taka þessa hluti á sig. Þess vegna er hreint skálkaskjól sem hæstv. ráðherra hleypur í þegar hann setur hlutina upp eins og hann gerði áðan. Veruleikinn er sá, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, að ríkisstjórnin er að hlaupa frá lögfestu fyrirheiti sínu um að lækka skatta um 1,9% niður í 1,5%. Það er veruleikinn sem hér blasir við og það er ekki nokkur leið fyrir hæstv. ríkisstjórn að skjóta sér undan því. En í öðru lagi er veruleikinn líka sá að með þessu er hæstv. fjmrh. að segja við verkalýðshreyfinguna að hún verði að gjalda varhug við samningum við þessa ríkisstjórn framvegis í svo langan tíma. (Gripið fram í.) Það liggur þegar fyrir á fyrstu mánuðum þessa samnings, sem á að gilda í mörg ár, að það er hættulegt að semja við núverandi ríkisstjórn í svo langan tíma. Hún stendur ekki við orð sín á þessu sviði frekar en öðrum.