Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 17:12:04 (1840)

1997-12-08 17:12:04# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:12]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta mál snýst um það hvort samningar eigi að standa. Ég las upp, hæstv. fjmrh., úr frv. ríkisstjórnarinnar þar sem segir að ríkisstjórnin muni beita sér fyrir að útsvör sveitarfélaga lækki um 0,4% frá því sem nú er eða tekjuskattur lækki samsvarandi sem þá verði fjármagnaður í samráði við sveitarfélögin. Þetta er alveg skýrt. Ef niðurstaða er ekki komin milli fjmrn. og sveitarfélaganna, þá er ekki hægt, herra forseti, að láta það koma niður á samningsaðilunum og fresta skattalækkuninni, það er ekki hægt. Ef ágreiningur er milli sveitarfélaganna og fjmrn., við skulum segja að hann sé þó sveitarfélögin hafi mótmælt, þá getur það ekki komið niður á launafólki í landinu sem samþykkti kjarasamningana m.a. vegna þessara skattalækkana. Þetta gera menn einfaldlega ekki. Það er ekki hægt að láta þessa boðuðu skerðingu koma fram eins og fjmrh. er að lýsa. Og það að rifja upp einhver önnur atriði í skattamálum svo sem 2% iðgjaldið sem við vorum að ræða kemur þessu máli ekki nokkurn skapaðan hlut við, herra forseti. Þetta er mjög einfalt mál. Ef það eru deilur, þá átti að útkljá þær milli aðilanna sem eru að deila. Það átti ekki að láta launafólk í landinu bera þær byrðar. Það er ekki hægt að gera það og ég trúi því ekki að verkalýðshreyfingin, þó að henni hafi verið kynnt þetta, muni taka því þegjandi að forsendum sé breytt í kjarasamningum sem eigi að gilda fram á næstu öld. Í hvers konar bananalýðveldi erum við? Þegar löggjafinn sem fer með meiri hluta þingheims rýfur þá sátt sem gerð var í vor, eina mikilvægustu kjarasátt sem hefur verið gerð til margra ára og það komu allir að því og trúðu því að staðið yrði við það sem menn (Forseti hringir.) höfðu skrifað undir. Menn höfðu ekki nokkra ástæðu til að ætla annað. En ef ríkisstjórn Davíðs Oddssonar með Friðrik Sophusson, (Forseti hringir.) hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar ætlar að grípa fyrsta tækifærið til að bregðast og ganga frá samningi, þá er það meira en ég átti von á frá hæstv. fjmrh.