Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 17:20:59 (1844)

1997-12-08 17:20:59# 122. lþ. 37.7 fundur 328. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:20]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef svarað flestu því sem kom fram hjá hv. þm. í andsvörum eða ræðum fyrr í umræðunni en ég vil taka það fram að það er alveg skýrt sem segir í textanum. Það er gert ráð fyrir að sveitarstjórnirnar séu með. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að sveitarstjórnirnar séu með þannig að hægt sé að lækka útsvarið í staðgreiðslunni um 0,4%. Ef það tekst ekki þá verði tekjuskattarnir lækkaðir samsvarandi og fjármagnað með þeim hætti að það færist til útgjaldamegin hjá sveitarfélögunum. Ekki er verið að segja að annaðhvort ætli ríkisstjórnin að fjármagna þetta sjálf eða sveitarfélögin ætli að gera það. Það dettur auðvitað engum í hug. Það sem verið er að segja er að þetta gerist annaðhvort í gegnum útsvarið eða með millifærslu á verkefnum og þá mun tekjuskatturinn vera lækkaður á móti. Það sjá allir heilvita menn og var þannig rætt við sveitarstjórnirnar og það var rætt líka þannig við forustumenn ASÍ. Þessi nýi skilningur hv. þm. stenst engan veginn því að þarna var um tvo möguleika að ræða, annaðhvort að lækka útsvarið eða að lækka skattinn og láta þá sveitarfélögin bera einhver útgjöld sem ríkið ber núna upp á sömu fjárhæð. Svo einfalt var það og hefur alltaf verið rætt um það þegar hv. þm. er að finna upp nýjan skilning á þessum texta núna í dag.