Vörugjald af ökutækjum

Mánudaginn 08. desember 1997, kl. 17:53:32 (1852)

1997-12-08 17:53:32# 122. lþ. 37.8 fundur 329. mál: #A vörugjald af ökutækjum# (dráttarbifreiðar, mengunarlaus ökutæki) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur

[17:53]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í andsvari við ræðu hv. þm. vil ég byrja á því að þakka honum hólið. Ég veit ekki hvort ég átti það að öllu leyti skilið. En varðandi fyrirspurn hans um það hvort búast mætti við frekari aðgerðum af hálfu fjmrn. vil ég láta koma fram að fjmrn. hefur átt í viðræðum við umhvrn. og kannski af meiri alvöru upp á síðkastið en stundum áður því að hv. þm. er nú fyrrv. umhvrh. Jafnframt hefur fjmrn. tekið þátt í sameiginlegu starfi fjármálaráðuneyta á Norðurlöndum og fylgst með því sem þar er að gerast en þar eru þessi mál ofarlega á baugi. Sömuleiðis fylgjumst við auðvitað vel með umræðum innan OECD og annarra alþjóðlegra stofnana um þessi mál.

Eins og hv. þm. veit þá er nokkurt bil á milli sjónarmiða fjármálaráðuneyta og umhverfisráðuneyta á Norðurlöndum. Þær skýrslur sem hafa komið fram í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og nú síðast í Finnlandi sýna að menn eru alls ekki sammála um hvernig eigi að leggja á svokallaða græna skatta né til hvers þeir leiði. En við fylgjumst að sjálfsögðu með þessari umræðu og mín skoðun er sú að þess sé ekki lengi að bíða að á verði lagðir skattar hér á landi út frá öðrum sjónarmiðum heldur en nú er gert. Tekið verði tillit til þess hvort starfsemi mengar í stórum stíl eða ekki og þá tala ég um mengun í mjög víðtækri merkingu þess orðs.

Að síðustu minni ég á, virðulegi forseti, að auðvitað hafa verið tekin skref eins og t.d. með spilliefnagjaldi og öðrum slíkum gjöldum til þess að koma til móts við þær óskir sem fram hafa komið og til þess að breyta skattálögum ríkisins um leið og fjárhagurinn er tryggður úr þeim fjárhagslegu yfir í að ná fram því breytta hátterni sem við teljum nauðsynlegt til að lifa í mengunarlausu umhverfi á jörðinni í framtíðinni.