Fjárlög 1998

Föstudaginn 12. desember 1997, kl. 18:41:02 (2064)

1997-12-12 18:41:02# 122. lþ. 41.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 1998# frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 41. fundur

[18:41]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki þessa tölu, 9,8% hækkun til Ríkisspítalanna. Hvernig er hún til komin? Hún er þannig til komin að í fyrsta lagi er gert ráð fyrir 550 millj. kr. vegna leiðréttingar á launum og kostnaði. Væntanlega gera menn ekki ráð fyrir því að fólk á Ríkisspítölunum hafi lægra kaup en annars staðar. Þess vegna er það bara sjálfsögð almenn verðlagsleiðrétting.

Í öðru lagi er um það að ræða að tekin hefur verið ákvörðun um að byggja barnaspítala. Það eru 200 millj. kr.

Í þriðja lagi er um það að ræða að Þvottahús Ríkisspítalanna er flutt af B-hluta yfir á A-hluta og það breytir auðvitað engu fyrir sjúklingana á Ríkisspítölunum hvort línið er þvegið í A-hluta eða B-hluta. Það eru 230--240 millj. kr. af þessari tölu, 9,8%, þannig að hér er ekki um neina aukningu að ræða sem marktæk er. Þess vegna finnst mér þetta vera hrein blekkingartilraun af hálfu fjmrn. því hún segir ekki neitt.

Hv. þm. heldur því ekki lengur fram að það sé verið að hækka til heilbrigðismálanna. En því var haldið fram hér fyrir nokkrum dögum. Því er ekki lengur haldið fram vegna þess að það eru alveg óyggjandi tölulegar staðreyndir frá Þjóðhagsstofnun um að svo er ekki. Það er út af fyrir sig afgreidd deila og það er gott. Væntanlega er þar með viðspyrna til að halda áfram að sækja aðeins áleiðis og upp á við fyrir heilbrrn. Hitt finnst mér aðalatriðið í ræðu hans og það er hvernig hann meðhöndlar samkomulagið frá 12. september. Það finnst mér ósanngjarnt. Vegna hvers? Vegna þess að í því var gert ráð fyrir margháttuðum aðgerðum vegna ársins 1998 og þar með minni kostnaði það ár sem ekki hefur verið farið í og ekki hefur verið gripið til, m.a. af því að heilbrrn. hefur ekki staðið sig. Á þá að senda spítölunum reikninginn fyrir það að heilbrrn. stendur ekki við samkomulag sem það hefur sjálft gert?