Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 18:52:46 (2287)

1997-12-15 18:52:46# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[18:52]

Frsm. minni hluta menntmn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Einhverra hluta vegna sjá menn ástæðu til að tortryggja það hversu hart það er sótt að ráðherrar skipi þessa fulltrúa án tilnefningar. Eins og ég gat um í minni framsögu, þá kemur þetta ákvæði inn undir því yfirskini að það sé í samræmi við tillögur þróunarnefndar. Þegar málið er síðan skoðað kemur í ljós að svo er hreint ekki.

Líka er það að ákvæðið siglir þarna inn undir fölsku flaggi. Það gefur mönnum þá vondu tilfinningu að hér sé ekki allt sem sýnist. Þess vegna, herra forseti, hefur minni hlutinn tekið þá ákvörðun að taka undir með þeim sem hafa gagnrýnt þetta og ég tel að það sé með réttu. Ég tel að menn eigi að vera á varðbergi gagnvart ákvæðum í lögum þessarar gerðar, ekki síst þar sem þau sigla inn undir því flaggi sem þetta ákvæði gerði.

Það sama á í rauninni við um rektor háskólans og önnur þau samræmingaratriði sem sett eru inn í frv., frv. sem á að vera rammalöggjöf. Það hefði verið hægur vandi að gera rammalöggjöfina þannig úr garði að menn hefðu getað unað betur við hana þannig að úr hefði orðið flík sem hæfði fleirum, en ekki ein sem hæfir líklega engum.