Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 21:15:53 (2290)

1997-12-15 21:15:53# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[21:15]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að háskólinn sagði flest til bóta í frv. nema IV. kaflann en það er eins og að segja að eggið sé gott, þ.e. allt nema það sem er innan í því, skurnin sé út af fyrir sig ágæt. IV. kaflinn er aðalágreiningsmálið og aðalmálið sem ríkisstjórnin er að berja í gegnum þingið. Það er þessi ofstjórnarkafli sem við höfum verið að gagnrýna og augljóst mál að Háskóli Íslands og háskólarnir allir báðust vægðar undan þeirri ofstjórnartilhneigingu sem þarna varð vart af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, því miður.

Varðandi fjármálin þá er það alveg rétt að hér á dögunum var samþykkt 50 millj. kr. tillaga vegna háskólans en hins vegar bendi ég á að háskólarektor hefur talið að til þess að halda uppi óbreyttri starfsemi á næsta ári þurfi 230 millj. kr. til viðbótar inn í skólann. Það eru 180 millj. kr. í viðbót við þessar 50 og bersýnilegt að enn er verið að gera kröfur um niðurskurð í Háskóla Íslands á sama tíma og menn gera sig dýrðlega með því að flytja tillögur um það að hver einasti nemandi í skólum í landinu eignist tölvur.