Háskólar

Mánudaginn 15. desember 1997, kl. 22:18:44 (2301)

1997-12-15 22:18:44# 122. lþ. 43.16 fundur 165. mál: #A háskólar# frv. 136/1997, RG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur

[22:18]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er áhugaverð umræða sem fer fram. Það verður að segjast eins og er að fyrir þann sem væri hugsanlega að fylgjast með umræðunni mundi hún vart virka alveg tæpitungulaus vegna þess að svo mjög eru menn að leggja skilning í bæði ákvæði í þessu frv. sem á að verða að lögum og jafnframt að setja fram túlkun sína eða eru ekki tilbúnir til þess að hafa lagagreinarnar svo ótvíræðar að allir gangi sáttir frá borði.

Auðvitað er það afskaplega mikilvæg löggjöf sem við erum að ræða eins og löggjöf um menntakerfið er, sama hvert viðkomandi skólastig er. Við vitum að menntakerfið og löggjöfin um menntakerfið er mjög þýðingarmikill rammi um þróun þjóðar. Ef menntakerfið er í ólagi, ef þar er brotinn hlekkur eða óvirkt hjá þjóð, markar það flest annað í þeirri þjóðlífsuppbyggingu. Þess vegna er svo mikilvægt þegar við erum að fjalla um hvort heldur er leikskólann, grunnskólann, framhaldsskólann eða háskólann að við séum sannfærð um að lögin sem við erum að setja séu lög sem færa okkur rétt inn í framtíðina og við séum sátt við þessi lög og teljum að það sé í takt við það lýðræðisþjóðfélag sem við höfum haft og haldið í sessi.

Hv. 3. þm. Reykn., Sigríður Anna Þórðardóttir, nefndi í ræðu sinni fyrr í kvöld að með rammalöggjöfinni um háskólann sé lokið lagasetningu um skólastigið. Ég er reyndar ekki að fullyrða að það sé nákvæmlega þannig sem þingmaðurinn orðaði það en hún var að vísa til þess að við værum á liðnum árum búin að vera að fjalla um í þessum sal og setja nýja löggjöf um skólastigin alveg frá því að löggjöf var sett í kringum 1990 um leikskólann og þar til nú að þessi rammalöggjöf kemur um háskólann. (Gripið fram í.) 1994 um leikskólann. (Gripið fram í.) Nei, nei, nei, það var sett fyrr.

(Forseti (GÁ): Hljóð í þingsal.)

Ég bið forseta velvirðingar á því að við þingmenn fórum í viðræður frá ræðustól og yfir til sæta þingmannanna um ártöl en það eru ekki þau sem skipta máli í því sem ég hef að segja.

Ég skil hins vegar mjög vel að hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir skuli leggja á það mikla áherslu að menntalöggjöfin hefur verið til svo mikillar umfjöllunar vegna þess að þessi þingmaður hefur komið mjög að því verki og verið vinnusamur þingmaður í þessum málaflokki, bæði með því að leiða starfsnefndir utan þings og taka við þessum stóru frumvörpum sem formaður menntmn. og vinna þessi mál þar til þau hafa verið afgreidd sem lög frá þinginu. Ég fullyrði það að hv. þm. Sigríður Anna Þórðardóttir sé búin að vera betri en margur þingmaður fyrir sinn flokk í þessum málaflokki og mér er ljúft að segja það úr þessum ræðustól. En því nefni ég þetta að ég hef fylgst með því hvað hefur verið að gerast á liðnum árum og þeim lögum sem hafa verið sett og hver hefur komið að þeim.

Hins vegar á sama hátt og ég legg áherslu á þetta og hef þessi góðu orð um hv. þm. er ég ekki alveg sammála því að einhverri langri leið sé lokið með löggjöfinni. Það er vegna þess að í umræðunni hefur margoft komið fram að þetta eru eingöngu rammalög og sérlög eru boðuð síðar. Hins vegar liggur ekki fyrir hvernig þau munu taka á þeim álitamálum sem hafa komið fram og það er vandi okkar, virðulegi forseti. Það er vandi okkar þegar við erum að fjalla um mál sem menn eru með áhyggjur af. Þegar lögð er svo mikil áhersla á að þetta eigi ekki að vera í lögunum af því að það sé rammalöggjöf og aðrir segja að þetta þurfi ekki að vera í lögunum af því að þau séu rammalöggjöf en það sem skiptir máli er að við vitum ekki nákvæmlega hvernig sérlögin verða og ég mun koma að því síðar hversu vandasamt það er að aftengja einhver gildandi lög meðan þessi óvissuþáttur er til staðar.

Ég vil hins vegar leggja áherslu á að við jafnaðarmenn höfum stutt mjög mörg af þessum lögum sem hafa verið til meðferðar. Við höfum ýmist staðið að frumvörpum sem hafa verið flutt eða stutt veigamiklar breytingar þó að við höfum líka kannski verið með ólík sjónarmið varðandi sumar greinar eða suma ákveðna þætti og t.d. veigamikil atriði eins og gjaldtöku í skólakerfinu. Ég nefni sérstaklega vegna ummæla hv. 7. þm. Reykn., Hjálmars Árnasonar, áðan um gjaldtökuna í skólakerfinu að mál eru ekki svona einföld eins og hann vildi setja þau fram. Það hefur margoft komið fram að vilji er til þess í þessum sal að láta greiða tilskilið gjald í skólum landsins. Þau hafa verið nefnd ýmsum nöfnum, innritunargjöld, efnisgjöld. Fyrst voru þau gjöld samkvæmt sérstakri ákvörðun skólanefnda heima í héraði en seinna reyndist vera vilji til þess að setja sömu gjöld inn á tekjuhlið skólanna og inn í fjárlög ríkisins og það var mjög stórt skref að stíga. Þingmaðurinn ætti að vita að ekki hefur eingöngu verið ágreiningur milli þeirra stjórnarflokka sem nú starfa um skólagjöld og ,,skólagjöld`` --- vegna þess að þau bera hin ólíkustu nöfn --- heldur var líka ágreiningur á milli flokks míns og samstjórnarflokksins á síðasta kjörtímabili. Það eru æðistór álitamál sem við erum að tala um og ekkert þýðir að varpa þeim frá sér í einhverjum hálfkæringi og segja: Við erum ekki að ákveða neitt og við erum ekki að taka upp skólagjöld núna, ef verið er að aftengja mikilvægt lagaákvæði sem hefur verið vörn í þessum málum. Þá verða menn bara að horfast í augu við hvað þeir eru að gera.

Áður en ég kem nánar að einstökum efnisþáttum frv. vil ég aðeins nefna þróunarnefnd Háskóla Íslands sem hér hefur verið nefnd til sögu. Ég átti sæti í þessari þróunarnefnd ásamt hv. þm. Sigríði Önnu Þórðardóttur og þó ég hefði ekki tök á að fylgja störfum nefndarinnar til enda, þá var ég þar nægilega lengi til þess að fá góða mynd af bæði umræðunni og umfjöllun í þeirri nefnd um þróun háskólans. Þetta var mjög áhugavert starf. Það komu margir að, nefndin var fjölmenn enda áhersla lögð á að fólk kæmi úr ólíkum áttum að starfinu og fyrir mig voru þetta kannski fyrstu kynni af háskólanum og starfi þar innan dyra. Það sem mér fannst mikilvægt var að þegar nefndaráliti var skilað var það skilningur minn og sýn mín á það nefndarálit að verið hafði sátt um niðurstöðuna og niðurstaða nefndarstarfsins virtist vera án ágreinings enda bar nefndarálitið þess kannski merki að hafa verið samkomulagsniðurstaða. Tel ég að þannig þurfi það að vera með svo þýðingarmikið menntastig eins og háskólinn er. Mér finnst það eðlilegt. Það kom fólk úr ólíkum áttum, m.a. úr atvinnulífinu og þeir sem þarna störfuðu voru sammála um að atvinnulífið ætti að koma með einhverjum tilteknum hætti að þeirri þróun sem yrði að verða í háskólanum en aldeilis ekki að þeir ættu að fara að hafa þar einhver úrslitaáhrif öðruvísi en í slíkri samhljóða niðurstöðu sem menn komast að.

Þetta finnst mér mjög mikilvægt að komi fram vegna þess að þróunarnefndin hefur verið nefnd nokkrum sinnum og vegna þess að mér finnst að það sem hún setti fram um fulltrúa atvinnulífsins hafi verið betri leið en það sem hefur verið rætt margoft, að ráðherra sé að skipa þessa aðila.

Virðulegi forseti. Að mínu mati fór frsm. minnihlutaálitsins, hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir frá þingflokki jafnaðarmanna, mjög faglega yfir álitamál minni hlutans. Í raun og veru vil ég fyrst og fremst fylgja eftir því sem hún hafði þar að segja þó ég ætli ekki að fara inn á öll þau atriði sem hún nefndi til sögu. Um leið og fundið er að því að þingmenn gagnrýna þetta frv. og brtt., þá er lögð áhersla á að þetta sé rammalöggjöf en minni hlutinn er að gagnrýna hve ýmis ákvæði frv. eru ítarleg og, eins og segir í nefndarálitinu, jafnvel smásmuguleg og það brýtur í bága við eðli rammalöggjafarinnar. Það er mjög sérkennilegt að sjá hvernig þetta frv. er sett fram miðað við það að vera rammalöggjöf.

[22:30]

Mig langar að nefna t.d. 11. gr. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta. Ég ætla að lesa fyrri hluta hennar:

,,Háskólaráð fer með úrskurðarvald í málefnum skólans og stofnana sem honum tengjast, vinnur að þróun og eflingu þeirra og markar þeim heildarstefnu.`` Þetta er mjög fín setning í rammalöggjöf. Svo kemur: ,,Háskólaráð er æðsti ákvörðunaraðili innan hvers skóla nema annað sé berum orðum tekið fram í lögum þessum`` og ef það væri þá hlyti það að hafa verið þarna, ,,eða í sérlögum sem gilda um hvern skóla.`` Þegar maður les þetta vaknar auðvitað sú spurning hvort það megi búast við því að þegar sérlög verða sett um háskólann verði e.t.v. annað uppi á teningnum en þarna segir vegna þess að um leið og ,,nema`` er sett inn er búið að galopna ákvæðið enda rammalöggjöf. Það er þetta sem skapar umræðuna og áhyggjurnar sem birtast í umræðu og áherslum þingmanna minni hlutans. Í raun er ýmist verið að aftengja eitthvað sem hefur verið vörn eða opna á eitthvað sem menn vita ekki hversu stórar eða víðar dyr verða. Þetta er vandinn.

Mig langar aðeins að nefna hvað kemur fram í tillögum minni hlutans í nefndaráliti þeirra vegna þess að menn hafa verið með mjög góðan málflutning en ekki staldrað svo mikið við tillögur minni hlutans. Fyrst og fremst er um að ræða þessa tvo fulltrúa í háskólaráði þar sem þróunarnefndin hafði lagt fram ákveðna hugmynd. Minni hlutinn bendir á að það sé mikilvægt að þeir fulltrúar sem ráðherra skipar verði tilnefndir af aðilum sem þekkja til mála varðandi hvert það svið sem háskólarnir eru að fást við eða þær áherslur sem þeir vilja leggja. Minni hlutinn vill því tryggja að faglegt mat ráði því hverjir veljast til setu í háskólaráði en ekki pólitískur geðþótti ráðherra. Þetta er mjög mikilvægt. Það er mjög mikilvægt í dag, ekki síst um háskólastigið að aldrei sé hægt að segja að geðþótti ráðherra hafi gilt.

Í öðru lagi leggur minni hlutinn áherslu á að skipan rektors geti verið mismunandi milli háskóla og það er nákvæmlega sama sjónarmið og Háskóli Íslands hefur sett fram og samræming þessa ákvæðis hafi ekki sjálfstætt gildi umfram samræminguna eina. Minni hlutinn er í raun og veru að leggja áherslu á að samræming geti ekki verið pólitískt markmið í sjálfu sér. Þarna legg ég aftur áherslu á skoðun þróunarnefndarinnar.

Í þriðja lagi komum við að gjaldtökunni. Í fréttatíma útvarpsins í kvöld var viðtal við formann menntmn. út af ágreiningnum um hvort verið sé að opna fyrir skólagjöld. Þá sagði formaður menntmn. að hún vildi að skýrt væri kveðið á um ef það ætti að taka upp skólagjöld. Hún lagði mikla áherslu á að hún væri ekki að taka afstöðu til þess hér og nú í sambandi við þessi lög en ef það ætti að fjalla um það þá vildi hún að skýrt væri kveðið á um það. Ég er alveg sammála þessu. Mér finnst mjög mikilvægt að þessi stóru álitamál séu skýr. Þau eru það ekki í frv. og þess vegna takast menn á um það hvort verið sé að opna fyrir skólagjöld eða ekki. Ég hefði kosið að þetta mál kæmi þannig frá menntmn. að það væri alveg ótvírætt. Það er óþolandi þegar lagasetning er svo óskýr að tekist er á í ótta um hvað geti gerst næst af því að vörnin er farin. Og vörnin lá í lögunum um skólakerfi sem ég ætla að koma að á eftir. Þess vegna hefði ég kosið að meiri hlutinn tæki af öll tvímæli um hvað hann meinar varðandi þessi mál.

Ef við skoðum lögin um skólakerfi eða þessa grein sem fyrst og fremst lýtur að skólagjöldunum, þá hljóðar hún svo, með leyfi forseta:

,,Kennsla er veitt ókeypis í öllum opinberum skólum. Í einkaskólum sem eru kostaðir að meiri hluta af almannafé eru skólagjöld háð samþykki menntmrn.``

Það eru mjög mikilvæg önnur ákvæði í þessum lögum um skólakerfi, t.d. 7. gr., þar sem segir að í öllu starfi skóla skuli konur og karlar njóta jafnréttis í hvívetna, jafnt kennarar sem nemendur. Það væri mjög gott að þessi lagagrein væri til um skólastarf meðan jafnrétti hefur ekki náðst. Hvað er það þá annað sem verður svo óþarft í lögunum um skólakerfi að nauðsynlegt sé að aftengja þau núna áður en sérlög um háskólann eru sett? Eigum við að skoða það örstutt?

1. gr. er um það að allir skólar sem eru styrktir af hálfu eða meira af almannafé mynda samfellt skólakerfi. 2. gr. er um að skólakerfi skiptist í þrjú stig, skyldunámsstig, framhaldsskólastig, háskólastig. Var það að breytast? Nei, það var ekki að breytast, þannig er það. Svo er fjallað um það að grunnskólinn er á skyldunámsstigi, hvaða skólar eru á framhaldsskólastigi og um háskólann. Þetta á alveg við í dag. 3. gr. er um fyrir hvern grunnskólinn er og 4. gr. er hvers lags skólar framhaldsskólar eru. 5. gr. er um að til inngöngu í háskóla þurfi stúdentspróf eða jafngildi þess o.s.frv. og háskólinn greinir því í þær deildir sem kveðið er á um í lögum hans og reglugerðum. Síðan kemur 6. gr. um að kennsla er veitt ókeypis og 7. gr. er um jafnrétti, þ.e. að ríki og sveitarfélögum sé skylt að tryggja nemendum hvar sem er á landinu sem jafnasta aðstöðu til menntunar. Síðan er grein um stuðning við nemendur sem þurfa á honum að halda og svo er um nánari útfærslu á framkvæmd fræðslu og skólaskipan hvers stigs að því skuli vísað í lög og reglugerðir og gildistökuákvæði. Hvað er það í þessum lögum um skólakerfi sem er endilega orðið óþarft? Ekkert. En hvað er mikilvægt að sé enn þá í lögum meðan ekki er búið að setja sérlög um háskólann? 6. gr. í lögunum um skólakerfi. Um þetta er verið að takast á í umræðunni og þess vegna segi ég: Þetta er afskaplega einfalt. Stjórnarliðar geta komið upp og sagt: Við erum ekki að setja á skólagjöld. Við erum ekki að opna einhverjar dyr upp á gátt sem gerir eitthvað mögulegt sem ekki var áður, við viljum það ekki en það mundi skipta mjög miklu máli að fella út 19. gr. vegna þess að í því fælist yfirlýsing um að það sem menn óttast, 26. gr. sé óþarfi. Það sé óþarfi að óttast. Það er ekkert í lögunum um skólakerfi sem þvælist fyrir og það er ekkert í lögunum um skólakerfi sem má ekki vera enn þá um stund í lögum um skólakerfi okkar. Það er því hægt að taka af öll tvímæli og sannfæra þá sem eru óttaslegnir.

Virðulegi forseti. Það er ekki í fyrsta sinn sem ég stend í þessum sal og hef áhyggjur af skólagjöldum né heldur í fyrsta sinn sem ég fjalla um hvort þörf er á þeim eða ekki. Þetta hefur oft verið mikið átakamál og ég tek undir með hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur að það eru háskaspor að setja á skólagjöld í þjóðfélagi okkar, í menntauppbyggingu okkar. Við höfum rætt þetta mál aftur og aftur og á meðan hefur í smáskrefum verið fléttað inn í kerfið hjá okkur að hægt sé að taka gjald, fyrst lítið og svo meira og það er alveg ljóst að þetta setur ýmsum skorður.

Annað sem ég hef ekki nefnt en er full ástæða til að nefna þar sem það er partur af þessu frv. og ég vil gjarnan nota tækifærið til að nefna það og er ég að tala um skólagjöld. Það er þetta fallega sem talað er um á hátíðis- og tyllidögum að það sé fjárfesting í menntun þjóðar. Þar eigi áherslan að liggja að mannauðurinn sé þrátt fyrir allt mesta auðlindin og við þekkjum allar þessar setningar. En það er samt þannig að ákveðin menntun er ekki greidd og það er fullorðinsfræðsla. Það er fullorðinsfræðslan sem liggur utan við hefðbundnu dagkennsluna. Ég ætla að nota þetta tækifæri til að minna á það vegna þess að ég þekki mjög vel úr ágætum skólum í kjördæmi mínu sem hafa verið að færa sig inn á nýjar brautir í fullorðinsfræðslunni. Það fólk sem þangað kemur gengur inn um dyr fræðslukerfisins og þarf að greiða fyrir sig. Ég vil því nefna í umræðunni um skólagjöld að það verður að fara að taka á fullorðinsfræðslunni, menntun þeirra fullorðnu ómenntuðu sem er stór partur af þjóðinni. Ef við ætlum ekki bara að framhaldsmennta þá menntuðu þá þarf líka að mennta hina ómenntuðu til þess að verða sú þjóð sem við tölum svo fallega um. Það virðist sem öllum sé sama um þennan hóp sem á allt sitt undir fullorðinsfræðslunni vegna þess að ekki sé sá þáttur fræðslukerfisins sem heyrir undir menntmrh. um þann hóp, ekki a.m.k. til að veita menntun ókeypis og því miður sér þess engan stað í starfsmenntunaráformum hjá félmrh. að það eigi að gera nokkurn skapaðan hlut litið til framtíðar fyrir þennan hóp.

Virðulegi forseti. Þetta var útúrdúr og kannski fyrst og fremst til að minna samstarfsflokkinn á að það á eftir að taka á málum ákveðins hóps í þjóðfélaginu og hvað getur fallið undir skólagjöld ef maður fer að skoða það.

Það hefur verið nefnt að háskólinn hafi lagt mikla áherslu á það í vor að IV. kafli væri ónauðsynlegur. Þar væri háskólanum settar ónauðsynlegar skorður og sérstaklega af því að þetta væri rammalöggjöf. Ég hef ekki náð því nægilega vel af hverju menn töldu að það þyrfti að vera með þennan IV. kafla sem háskólinn var ósáttur við. Þess vegna óska ég eftir því að formaður menntmn. fari nokkrum orðum um það í svari sínu á eftir.

[22:45]

Ég hef heldur ekki fengið skýr svör um það af hverju farin er sú leið að breyta þeirri hefð sem verið hefur um val rektors sem er í takt við það sem hefur verið annars staðar, að rektor hefur verið valinn af háskólasamfélaginu. Af hverju er verið að breyta því? Hver er þörfin? Hver er hugsunin á bak við það? Það er fyrst og fremst þetta sem mig langar til að spyrja sérstaklega um. Hvers vegna á að breyta þessu með skipan rektors? Það væri líka fróðlegt, virðulegi forseti, ef við fengjum einhver skýrari svör um það af hverju á að velja háskólaráðið með þeim hætti sem hér er lagt til.

Virðulegi forseti. Ég hef aðeins stiklað á örfáum atriðum varðandi frv. þar sem mér hefur fundist mikilvægast að nefna aðalósk háskólans um að sleppa IV. kaflanum og að 3. gr. verði ramminn um stjórn háskólans og líka hverju má búast við í sérlögum um háskólann þegar kemur að því að setja þau því verið er að setja ,,nema annað sé tekið fram í sérlögum`` eins og í 11. gr. og fá viðhlítandi skýringu á kjöri rektors. Ég nefni það í lokin af því að ég hef lagt mikla áherslu á gjaldtökuna og hugsunina á bak við skólagjöld að í 19. gr. er verið að nefna tvennt. Síðustu málsliðir í 19. gr. hljóða svo:

,,Í sérlögum, samþykktum eða skipulagsskrám hvers háskóla skal setja reglur um hvernig háttað skuli gjaldtöku af nemendum vegna náms við viðkomandi skóla. Í sérlög hvers ríkisháskóla skal setja reglur um öflun sértekna með gjaldtöku fyrir þjónustu er skólarnir bjóða.``

Virðulegi forseti. Þau innritunargjöld eða efnisgjöld eða hvað sem menn hafa viljað kalla það hingað til hafa í raun og veru fallið undir þennan síðari málslið ,,sértekjur`` í umfjöllun hingað til í þinginu. Þess vegna spyr ég í hverju er munurinn fólginn. Þetta eru tvær setningar þar sem annars vegar skal setja reglur um hvernig hátta skuli gjaldtöku af nemendum vegna náms í viðkomandi skóla og svo að í sérlög hvers ríkisháskóla skuli setja reglur um öflun sértekna. Hvað felst í þessari tvískiptu setningu? Það er mjög mikilvægt að það sé skýrt út fyrir þeim sem hafa ekki tekið þátt í umfjöllun menntmn. um þetta mikilvæga frv.