1997-12-16 12:05:39# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), KPál
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[12:05]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ráðstefnan í Kyoto og niðurstöður hennar eru merkilegasta framlag jarðarbúa til verndar umhverfis síns fyrr og síðar. Árangurinn felst ekki síst í því að þjóðir heims viðurkenna að umhverfisvernd kostar peninga og þarfnast skipulags.

Hvað okkur Íslendinga varðar er niðurstaða ráðstefnunnar erfið miðað við þau miklu stóriðjuáform sem eru uppi. Þó fáum við hagkvæmustu niðurstöðu varðandi viðbótarlosun gróðurhúsalofttegunda eða um 10% í plús miðað við árið 2010, frá 1990--2010. Ef aðeins er tekið tillit til þeirra framkvæmda sem þegar eru ákveðnar á stóriðju verður þetta hlutfall okkar plús 26% árið 2010. Þetta er bláköld staðreynd, herra forseti.

Fyrir okkur sem eyþjóð verður ekki notast við einföld trikk til að lækka losunarhlutfallið eins og smáríki í Evrópu gætu hugsanlega gert með einföldum aðgerðum eins og þeim að taka bensínið sitt hjá stóra bróður, nágrannaríkinu, og þá kæmi sú viðbót á stóra ríkið og hefði sáralítil áhrif á viðbótarútblástur þess ríkis.

Við getum heldur ekki notað trikk eins og virðist eiga að gera sums staðar og flaggað út fiskiskipaflota okkar til þróunarríkis sem er utan rammasamningsins og losað okkur þannig við jafnvel 30% af öllu gróðurhúsalofttegundahlutfalli okkar og byggt í staðinn álver. Ein álverksmiðja hér mælist eins og kom fram hjá hæstv. umhvrh. 15% til viðbótar í gróðurhúsaútblæstri en í Bandaríkjunum mælist slíkt aðeins 0,0006%. Við stöndum frammi fyrir miklum vanda hvað þetta varðar.

Ýmsar aðgerðir sem menn hafa hingað til talið að gætu leyst ýmislegt varðandi mengunarmál í stóriðjumálum okkar Íslendinga eins og vothreinsibúnaður á álver mun ekki skipta neinu máli varðandi samninginn. Útblástursbúnaður á bíla mun heldur ekki skila nokkrum árangri samkvæmt þessum samningi. Við þurfum, herra forseti, miðað við þær upplýsingar sem við fengum á fundi í gær frá hæstv. umhvrh. og samningamönnum frá Kyoto að finna nýja sýn í þessum málum. Við þurfum í rauninni að finna nýja sýn í atvinnumálum. Við þurfum að finna nýja sýn til þess að draga úr þeim miklu áformum sem munu skapa mikla mengun á næstu árum og það verðum við að gera með öðrum hætti en við höfum hugsað okkur hingað til.

Sú nýja sýn, herra forseti, verður ekki byggð upp á skýjaborgum sem mér finnst að ýmsir hafi verið að reyna að byggja upp á undanförnum mánuðum, skýjaborgum sem felast í því að breyta eldsneyti fyrir farartæki umfram það sem almennt getur gerst. Mér finnst að það geti heldur ekki byggst upp á skýjaborgum um það að byggja upp samgöngur með járnbrautarlestum suður á Reykjanes eða yfir hálendið. Þess lags skýjaborgir tel ég ekki gera neitt annað en drepa þeirri alvarlegu umræðu á dreif sem verður að fara fram. Ég tel að við þurfum, herra forseti, að einbeita okkur að því að vinna nýjar áætlanir í uppbyggingu á fyrirtækjaforminu og í stað þess að líta einvörðungu á stóriðjuáformin að fara að líta á smáfyrirtæki, samsetningarfyrirtæki og úrvinnslufyrirtæki. Slík fyrirtæki passa mun betur að því atvinnulífi sem hér er vegna þess hversu markaðurinn er smár og möguleikar okkar til stórrar uppbyggingar á sviði stóriðju eru litlir. Það passar betur inn í efnahagskerfi þjóðarinnar eins og komið hefur fram. Ég tel að við eigum að virkja það sem við höfum í rafmagni með streng og koma þeim áætlunum sem hingað til hafa verið til umræðu eðlilega á framfæri.

Herra forseti. Aðrar aðgerðir eins og virkjanir metangass eru gagnlegar og landgræðsla og skógrækt og ýmislegt annað sem komið hefur hér fram. Ég vil að lokum, herra forseti, segja að að mínu áliti hefur samninganefndin okkar í Kyoto náð mjög góðum samningi að ýmsu leyti þó að ég telji að ýmsu þurfi við hana að bæta sem ég tel að eigi að takast á næstu mánuðum. Ef það tekst getum við staðið við þau áform sem við höfum þegar samþykkt og undirbúið í stóriðju en um leið verðum við að ná þeim markmiðum í atvinnumálum sem horfa til lengri framtíðar.