1997-12-16 12:17:33# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), EKG
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[12:17]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Þó ástæða sé til að fagna þeirri niðurstöðu sem fékkst í Kyoto þá er engin ástæða til þess að líta fram hjá því að sú ákvörðun sem þar var tekin mun hafa veruleg áhrif á sjávarútveginn. Fyrir liggur að þriðjungur af útstreymi koltvíoxíðs kemur frá sjávarútvegi. Allar aðgerðir sem miða að því að að stemma stigu við þessum útblæstri munu því að sjálfsögðu koma við þessa atvinnugrein sem veldur svo miklu af þessu útstreymi.

Ég vil leggja áherslu á það að sjávarútvegurinn í landinu þarf að njóta ákveðinnar sérstöðu, sveigjanleika og svigrúms. Við sjáum að á undanförnum árum hefur sjávarútvegurinn verið að ganga í gegnum mjög miklar breytingar. Þegar að þrengdi í aflaheimildum hér við land þá brást atvinnugreinin m.a. þannig við að sækja á fjarlæg mið. Því fylgdi að menn þurftu að fjárfesta í stærri skipum, öflugri skipum með meiri útblæstri. Jafnframt þessu hafa menn í sjávarútveginum, í fyrsta lagi vegna krafna um betri meðferð á afla, orðið að nota meira af kælimiðlum en áður og þróunin auðvitað verið sú sem við öll þekkjum. Frystiskipaútgerð hefur stóreflst í kjölfar aukinnar sóknar á fjarlæg mið sem þýðir auðvitað að hætta á útstreymi hættulegra efna frá sjávarútveginum er meiri en áður.

Þetta segir okkur, virðulegi forseti, að við verðum að taka tillit til sérstöðu þessarar atvinnugreinar. Enginn skyldi draga dul á að fram undan er mjög vandasamur tími í íslenskum sjávarútvegi. Hann þarf að aðlaga sig þessum breyttu aðstæðum. Ég vil þess vegna segja að það urðu mér mikil vonbrigði að nú er verið að leggja niður þá einu stofnun sem burði hefur haft til þess að fylgjast með íslenskum skipum. Þar á ég við tæknideild Fiskifélags Íslands og Fiskveiðasjóðs. Því miður hefur ekki tekist að fá fjármagn til þess að halda þessari starfsemi við, einu starfseminni sem getur aflað upplýsinga um skipin og eðli þeirra. Tæknideildin náði gríðarlegum árangri við það að draga úr orkunotkun fiskiskipaflotans og því eru þetta mikil vonbrigði.

Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því að á þessum sviðum eins og mörgum öðrum er hægt að ná talsverðum árangri með tiltölulega litlum tilkostnaði. Í þessu sambandi vil ég nefna tvennt. Í fyrsta lagi hvað varðar raforkuþörf skipa í höfnum. Það er gert ráð fyrir að raforkuþörf skipa í höfnum nemi um 30 gígavattstundum. Ég vil vekja athygli á að með breyttri verðstefnu, tókst á örfáum árum að auka söluna á rafmagni úr landi úr 8 í 14 gígavattstundir. Enn er þarna svigrúm en það ræðst annars vegar af því hvernig verðlagningu á þessari raforku verður háttað. Verður hún samkeppnisfær miðað við dísilkeyrslu á vélum í landi? Hins vegar með hvaða móti tengibúnaði og þess háttar hjá höfnunum sjálfum er komið fyrir.

Í öðru lagi er ástæða til að vekja athygli á því sem fram kemur á bls. 69 í skýrslu umhvrh. um loftslagsbreytingarnar. Þar segir svo, virðulegi forseti: ,,Í athugun sem gerð var árið 1993 kom í ljós að hagkvæmt gæti reynst að setja upp rafskautakatla í um þriðjungi fiskimjölsverksmiðja í landinu, eða 10 talsins, sem gætu nýtt svokallaða ótrygga raforku. Aflþörf þeirra var 45 megavött en ljóst var að hagkvæmt gæti reynst að nýta ótryggt rafmagn í nokkrum öðrum fyrirtækjum. Stjórn Landsvirkjunar bauð síðan þeim fyrirtækjum sem áhuga höfðu á að koma upp rafskautakötlum til að nýta ótryggt rafmagn í stað olíu 50% afslátt frá gjaldskrá til ársins 2000.``

Ég vil vekja athygli á því að hér er gert ráð fyrir að þessi afsláttur hverfi í ársbyrjun 2000 og þess vegna er mikil óvissa fram undan hjá þessum fyrirtækjum sem leiðir til þess að öllu óbreyttu að fyrirtæki munu ekki fjárfesta á þessu sviði. Það væri þó mikilvægt mál til þess að draga úr þessu útstreymi á óæskilegum lofttegundum. Því vil ég hvetja hæstv. iðnrh. til þess að beita sér fyrir því sem lið í þessum aðgerðum að þessi afsláttur verði veittur ótímabundið þannig að fleiri fyrirtæki geti nýtt sér þessa möguleika. Jafnframt þessu þarf að styrkja dreifikerfið jafnvel þó ríkið þurfi að kosta einhverju til. Það er auðvitað mjög auðveldur og ódýr kostur til þess að ná þeim markmiðum sem við höfum ákveðið að setja okkur með undirskriftinni í Kyoto.

Síðan vil ég taka lítið dæmi sem iðnrekandi úr Reykjavík sagði mér frá. Hann stóð frammi fyrir því fyrir nokkrum árum, hvort hann ætti að endurnýja búnað sinn með rafskautakatli eða olíukyndingu. Hann komst að því að það væri ódýrara fyrir hann að nota olíukyndingu en rafskautakatla. Hann tók hins vegar þá ákvörðun, þótt það kostaði hann meiri peninga, að nýta rafskautakatlana og koma þannig í veg fyrir útstreymi. Verðlagningin á orku á Íslandi er í dag þannig að í (Forseti hringir.) ýmsum tilvikum er dýrara að flytja orkuna inn en að nýta innlenda endurnýjanlega orkugjafa. Þessu þarf auðvitað að breyta. Það þarf að breyta verðlagningu á íslenskri orku.