1997-12-16 12:23:18# 122. lþ. 44.6 fundur 136#B skýrsla umhverfisráðherra um rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og Kyoto-bókunina# (munnl. skýrsla), RG
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[12:23]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér var bent á að góða veðrið á aðventunni ætti e.t.v. rætur í ógnvænlegum breytingum á lofthjúpi jarðar vegna svokallaðra gróðurhúsaáhrifa. Sannarlega hefur veðurfar verið óvanalegt í Evrópu á þessu ári. En það sem vekur athygli í umræðunni um afleiðingar mengunar og er staðfest hér í dag er hve við erum öll sjálfhverf. Umræðan snýst um það hvað hver þjóð má menga mikið og togast er á um hvað sé hægt að ná í sinn hlut fremur en hvernig við sameinumst um að snúa óheillavænlegri þróun við. Og það liggur við að ég spyrji: Erum við ekkert óróleg? Erum við ekkert hrædd við það sem er að gerast?

Við blasir að vandinn er efnahagslegur enda kom það vel fram í máli iðn.- og viðskrh. hér fyrir stundu að þetta mál snerist fyrst og síðast um efnahagsmál.

Eins er fróðlegt að velta því fyrir sér að við tökum þegar að ræða um að ef hinir gerðu eins og við, þ.e. losuðum aðeins 8,6 tonn á íbúa, þá hefði ekki þurft þennan fund í Kyoto. Varnarstaða stjórnmálamanna er gjarnan að detta í umræðuna um ef og hefði en við stöndum frammi fyrir því að í Kyoto hefur verið haldinn fundur og hann dregur fram ógnvænlega stöðu sem skekur nú þjóðir heims. Ég ætla ekki að reyna að leggja mat á það hvort 8,6 tonn á íbúa er viðunandi, ég veit það ekki. Ég vil hins vegar að við öxlum ábyrgð okkar í mengunarmálum. Við tölum um allan heiminn sem atvinnusvæði. Við ætlum okkur hlut þar. Við köllum eftir að vera metin á jafnréttisgrundvelli þrátt fyrir að við séum fámenn þjóð. Við erum stolt af því hve þjóðin er vel upplýst og fylgist vel með og þess vegna á umræðan að snúast um hver ábyrgð okkar er og hvernig við bregðumst við staðreyndum um umhverfið.

Á Íslandi höfum við búið við falskt öryggi og þá trú að við höfum algera sérstöðu hvað varðar hreinleika. En nú sjáum við að málið er ekki svo einfalt. Samkvæmt skýrslu umhvrh. kemur fram að að óbreyttu mundi heildarútstreymi okkar aukast um 15% til ársins 2000 og um 26% til ársins 2010 samanborið við árið 1990. Þessar tölur, 16% aukning til ársins 2000, eru eingöngu miðaðar við lögfesta stækkun Ísals í 160 þús. tonn sem er þegar orðin, Norðurál með heimild frá Alþingi upp á 60 þús. tonn og einn ofn í íslenska járnblendinu sem verið er að undirbúa. Í 26% aukningu til ársins 2010 er engin ný stóriðja. Þetta eru bara staðreyndir úr skýrslu ráðherra. Þar er ekki 40 þús. tonna stækkun Ísals, sem rætt hefur verið um. Þar er ekki 120 þús. tonna stækkun álversins á Grundartanga, Norðuráls. Þar er ekki magnesíumverksmiðja á Reykjanesi, ekki olíuhreinsunarstöð fyrir austan, ekki uppbygging á Keilisnesi og ekki Norsk Hydro á Reyðarfirði. Ekki, ekki, ekki. Hið alvarlega er að engu að síður liggur fyrir heimild, lögfest héðan frá Alþingi, varðandi 40 þús. tonna stækkun Ísals og 120 þús. tonna stækkun Norðuráls. Staðreyndirnar blasa við, ábyrgð okkar og viðfangsefni.

Við jafnaðarmenn höfum viljað nýta þá auðlind sem felst í orku okkar og við eigum þátt í ákvörðunum og aðgerðum sem á sínum tíma gáfu Íslendingum mikilvæga efnahagsuppsveiflu. Við höfum jafnframt borið gæfu til þess að vera vakandi fyrir breyttri stöðu. Við, eins og aðrir, verðum að gera sérstaka áætlun um orkunýtingu og uppbyggingu fyrirtækja. Út á þetta gengur samþykkt frá flokksþingi okkar fyrir ári og þau mál munum við skoða. Mér finnst því að þessi umræða eigi ekki að bera svip stjórnar og stjórnarandstöðu. Hún á að snúast um það hvernig við bregðumst við og um sameiginlegar áætlanir. (Forseti hringir.) Ég spyr þess vegna hæstv. umhvrh.: Hvernig ætlar hann að bregðast við? Áformin eru engin miðað við tölur um aukna mengun allt upp í 26% meðan við höfum fengið heimild fyrir 10% á komandi árum.