Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 16:44:17 (2395)

1997-12-16 16:44:17# 122. lþ. 44.9 fundur 349. mál: #A hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[16:44]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Er það virkilega svo sem hér kemur fram? Hefur hv. frsm. frv. ekkert að segja um þá brýnu nauðsyn sem ber til að þetta mál er flutt í miðjum jólaönnum Alþingis? Það séu þá helst órar um að ekki sé á valdi einstakra þingmanna að ákveða hvaða verksmiðjur koma hér til landsins? Ef grunnurinn að tillöguflutningi inn í þingið er með þessum hætti þá fer þetta að verða sögulegra en jafnvel ég bjóst við. Ég hef þó rakið sitthvað óvenjulegt í sambandi við málið. En að þessu hafi snjóað hér inn og meiri hluti umhvn. hafi gripið það á lofti og skellt því fram án þess að kynna sér efnisatriði á bak við. --- Mér finnst þá að málið gæti verið hluti í áramótagleði okkar og til meðferðar á ný eftir jólahlé þingsins þar sem það kæmi til skoðunar í heildstæðara formi, með eðlilegri málsmeðferð, og yfirferð á stjfrv. um hollustuvernd.