Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 16:46:04 (2396)

1997-12-16 16:46:04# 122. lþ. 44.9 fundur 349. mál: #A hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[16:46]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að koma inn í umræðuna í andsvari við hv. þm. Hjörleif Guttormsson út af ræðu hans um vinnuna í umhvn. og þörfina á málinu hér og nú með þessum hætti sem það ber að. Ég tek fyrst undir með honum að umhvn. hefur í mörgum málum, sem lögð hafa verið fyrir af hálfu umhvrh. og umhvrn., unnið mikilvægt starf. Skemmst er að minnast byggingar- og skipulagslaganna sem hann gerði að umræðuefni en þau eru ekki til umræðu að þessu sinni heldur mál sem ég mælti fyrir 23. október sl. Það kom því tiltölulega snemma inn í þingið miðað við ýmis önnur mál sem við erum að reyna að afgreiða seinustu dagana fyrir jólahlé. Ég lagði strax mikla áherslu á það í framsöguræðu minni að taka þyrfti á starfsleyfismálunum sem öllum sem fylgst hefðu með væri ljóst að væru í ólestri og það veit hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ekki minnst um.

Ég gerði grein fyrir því þá að ég teldi að nauðsynlegt væri að koma alveg skýrum leikreglum hvað þetta varðaði inn í lög þannig að menn þyrftu ekki að takast á um hvað lagatextinn segði annars vegar og hvað reglugerðir segðu hins vegar og hvort þar væri ekki rétt á málum haldið. Við vitum að málin eru í ákveðinni blindgötu eins og er og ég vil forðast að við höldum áfram að glíma við mál með þeim hætti. Þess vegna lagði ég mikla áherslu á að málið færi í gegn fyrir áramót, helst í heild sinni, en a.m.k. væri mjög nauðsynlegt að tekið væri sérstaklega á réttaróvissu hvað varðar útgáfu starfsleyfa og um úrskurðarferlið. Um það gat ég í framsöguræðu minni á þeim tíma. Þegar ljóst var að umhvn. mundi vart takast að afgreiða málið í heild var farið fram á hvort mögulegt væri að taka þá þætti sérstaklega út úr, sem að mínu áliti er nauðsynlegt að afgreiða fyrir áramótin, og fjalla um þá sér ef svo færi að ekki væri hægt að taka málið í heild. Ég legg því ákveðið til að þannig verði gengið í að afgreiða málið og við fáum þessi ákvæði (Forseti hringir.) afgreidd um hvernig staðið skuli að starfsleyfi og kæru- eða úrskurðarmálum þannig að þeirri óvissu sé eytt sem um það ríkir.