Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 16:48:42 (2397)

1997-12-16 16:48:42# 122. lþ. 44.9 fundur 349. mál: #A hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[16:48]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hið besta mál að reyna að eyða óvissu og sjálfsagt að menn taki þátt í því að reyna að skýra og bæta lög og það er auðvitað það sem hv. umhvn. hefur ætlað sér með þessu máli sem öðrum sem nefndin hefur unnið af mikilli samviskusemi. Hins vegar hafa engin rök komið fyrir því að einhverja brýna nauðsyn beri til þess nú vegna áramóta og þeirra þáttaskila sem þau eru að grípa þungavigtaratriði út úr frv. um hollustuhætti til þess að afgreiða þau sér sem breytingu á gildandi lögum. Þau rök hafa einfaldlega ekki komið fram.

Ég bendi einnig á, virðulegur forseti, að ef það ætti að fara að lögfesta þetta sem er á ferðinni þá skiptir það almenning engu máli varðandi réttarstöðu hans því að það ekki er verið að bæta hana nema síður sé. Það sem er verið að gera skýrara er að mátturinn og dýrðin og valdið sé ráðherrans þegar um stóriðjufyrirtæki er að ræða því að fjárfestingar upp á 950 milljónir eru teknar sérstaklega út úr. Þar hefur ráðherrann einn valdið og aleinn. Það er því verið að draga úr réttarstöðu almennings frá því sem var með gildandi lögum þannig að það sem er á ferðinni skiptir ekki nokkru máli varðandi réttarstöðu almennings því það er verið að taka réttinn af almenningi þegar stóriðja á í hlut. Það eru þær jólagjafir sem hugmyndin er að færa með lögfestingunni og mér finnst að við ættum að doka við og skoða það mál svolítið og þær fjölmörgu athugasemdir sem hafa komið fram í sambandi við þau efni.