Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 16:50:59 (2398)

1997-12-16 16:50:59# 122. lþ. 44.9 fundur 349. mál: #A hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[16:50]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst út af fyrir sig mikilvægt að heyra hv. þm. Hjörleif Guttormsson lýsa því yfir að það sé gott að við skýrum leikreglurnar með þessu móti. Í hinu upphaflega frv. sem ég lagði fram í þingbyrjun og mælti fyrir 23. okt. kemur fram að verið er að gera leikreglurnar með þeim hætti að almenningi sé ljóst hver réttur hans er og hvernig ferlið er. Það er ekki nýtt að ráðherra gefi út starfsleyfi fyrir hin stærstu fyrirtæki. Það er óbreytt frá því sem er í gildandi lögum þannig að á því er ekki munur. Tekið er á því í hinu fyrra frv. og þessu síðara hvernig aðgangur og kærumeðferð er og hvar og hvernig almenningur getur komið athugasemdum sínum eða kærum á framfæri þannig að það er líka skýrara en er í lögunum í dag. Það að brýnt sé að taka á málinu nú og afgreiða það fyrir áramót byggist auðvitað að hluta til á því sem fram hefur komið hjá hv. framsögumanni frv. sem nú er til umræðu.

Nokkur starfsleyfi eru fyrirliggjandi sem þarf að endurnýja eða gefa út að nýju fyrir starfandi verksmiðjur eins og Sementsverksmiðjuna og Steinullarverksmiðjuna. Það er vitað að hjá Hollustuvernd ríkisins er í vinnslu starfsleyfi fyrir stækkun Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga þannig að það liggur líka fyrir að það mál er þegar komið af stað. Hv. þm. nefndi áðan að óljóst kynni að vera með þá stækkun. Ég veit ekki um það og það getur vel verið að svo sé en umsóknin liggur fyrir, málið er í vinnslu. Ef þetta verður ekki afgreitt fyrir áramót og þing kemur saman að venju einhvern tímann í janúarlok og er síðan með frv. í heild sinni til úrvinnslu fram undir þinglok, (Forseti hringir.) þá kann að vera kominn apríl eða jafnvel miður maí áður en málið verður afgreitt. Þá er alveg ljóst að það hlýtur að tefja fyrir því ferli sem þá þarf að vera í gangi um starfsleyfismálin og ég vil leggja áherslu á það að ég tel að það sé bæði nauðsynlegt og mjög brýnt að það starfsleyfisferli sé skýrt og hægt sé að vinna samkvæmt því strax (Forseti hringir.) en ekki að mál tefjist samkvæmt gömlum reglum í vetur, fram á vor og við sjáum þá til hvort þá verður yfir höfuð hægt að vinna samkvæmt nýjum lögum. Þess vegna hef ég lagt mikla áherslu á að þetta yrði lögfest nú.