Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 16:53:50 (2399)

1997-12-16 16:53:50# 122. lþ. 44.9 fundur 349. mál: #A hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[16:53]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Varðandi síðasta atriðið og sem er kannski efnislega það sem menn eru að tala um að brýnt sé, þ.e. útgáfa starfsleyfa, þá liggur engin stjórnarsamþykkt fyrir hjá Íslenska járnblendifélaginu um stækkun verksmiðjunnar. Það liggja bara þær heimildir sem eru í lögum en engar samþykktir. Að vísu mun stjórnin funda, að held ég á morgun, en mér vitanlega liggur ekkert fyrir þeim fundi um þetta efni og það er einhvern tímann á góunni sem næsti stjórnarfundur er um þetta mál þannig að þetta efni er ekki á neinni hraðferð.

Hæstv. ráðherra talar síðan um að það sé verið að skýra það sem sé í lögum um útgáfu starfsleyfa. Það er ekkert til í lögum um stóriðjufyrirtækin að hæstv. ráðherra eigi að gefa þau út. Það er í reglugerð en ekki í lögum (Gripið fram í.) og hér er ekki neinn kærufarvegur. Það er beinlínis verið að loka þeim kærufarvegi sem er þó að finna samkvæmt 26. gr. núverandi laga. Það er verið að kippa stóriðjufyrirtækjunum út úr þannig að það sé engin leið að úrskurðarnefnd varðandi stóriðjufyrirtækin --- og almenningur fái engan kærurétt. Það er réttarbótin sem felst í frv. sem liggur fyrir að ráðherrann einn eigi að hafa valdið og einn að hafa úrskurðinn um þær athugasemdir sem almenningur kann að gera. Þess vegna orða ég það svo, virðulegur forseti, að það sé mátturinn og dýrðin ráðherrans sem hugmyndin er að lögfesta á jólaföstunni varðandi stóriðju sem eðli máls samkvæmt er að jafnaði viðsjárverðasti mengunarvaldurinn í sambandi við atvinnurekstur hér á landi. Það hefur a.m.k. reynst þannig að það þurfi að vakta það sérstaklega. Þar á að loka kæruréttinum hjá almenningi og hæstv. ráðherra ætlar að hafa þá málsmeðferð alla í vasanum.