Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 17:17:15 (2401)

1997-12-16 17:17:15# 122. lþ. 44.9 fundur 349. mál: #A hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[17:17]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði í upphafi máls síns að þetta mál væri of seint fram komið. Auðvitað er frv. sem er til umræðu sem slíkt nýtt en það er efnislega það sama, sömu ákvæði í því eins og í frv. sem ég lagði fram í upphafi þings og mælti fyrir 23. október. Sumt af því sem hv. þm. spurðist fyrir um á í raun miklu meira skylt við efni málsins í heild, þ.e. við það frv. sem er heildarendurskoðun á lögunum og starfsemi stofnunarinnar. Við höfum oftsinnis áður rætt um stöðu stofnunarinnar, sem hefur fengið síaukin verkefni á undanförnum árum, og út af fyrir sig er sérmál að ræða um hvernig búið er að henni og hvernig er með fjárhag hennar og slíkt. Fjárhagsstaða hennar hefur að vísu verið löguð verulega á undanförnum árum, bæði með fjárlögum og fjáraukalögum og gert ráð fyrir því enn í fjárlagafrv. sem liggur fyrir þinginu til afgreiðslu. Það er því nokkuð tekið á þeim málum en ég vildi fyrst og fremst undirstrika þetta við hv. þm. að verið er að fjalla um mál sem búin eru að vera til umræðu, voru tekin til umræðu í októbermánuði, 1. umr. málsins, og síðan búin að vera til umfjöllunar í hv. nefnd þennan tíma. Það er því ekki nýtt í þeim skilningi þó málatilbúnaðurinn, eins og hann er lagður núna fram, sé nokkuð sérstakur. Það er að þeirri ósk minni, sem ég setti fram þá strax, að ef það kæmi fljótlega í ljós í vinnu nefndarinnar að ekki yrði hægt að afgreiða málið í heild þá óskaði ég eftir því að það yrði skoðað hvort hægt væri að taka þá þætti sem varða starfsleyfisútgáfuna út úr sérstaklega af því að ég taldi það brýnt og liggja á að taka á því máli.

Varðandi stjórnina, sem hv. þm. spurði um og velti nokkuð fyrir sér, er það svo að sérfræðiþekkingin hlýtur fyrst og fremst að vera innan stofnunarinnar sjálfrar. Þegar stjórnarmenn eru valdir með einum eða öðrum hætti og sumir samkvæmt tilnefningum er ekki endilega verið að horfa til þess að það séu sérfræðingar á sviði mengunar eða annarra slíkra mála sem veljast í stjórnarsetuna svoleiðis að sérþekkinguna hljótum við að verða að byggja upp innan stofnunarinnar og verða að treysta á það að hún sé fyrst og fremst fyrir hendi þar.

Ég sé að tími minni er útrunninn, hæstv. forseti, en mig langar til þess að koma að tveimur öðrum atriðum sem hv. þm. spurði um og ég geri það kannski í síðara andsvari fái ég leyfi til.