Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 17:45:26 (2405)

1997-12-16 17:45:26# 122. lþ. 44.9 fundur 349. mál: #A hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[17:45]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Einu sinni enn langar mig að taka það fram, af því að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon tók það upp eftir öðrum að hér væri um skemmri skírn að ræða og væri verið með miklum flýti að keyra mál í gegnum þing, að þó það sé vissulega rétt að frv. sem hér er til umræðu sé nýframkomið, þá er verið að tala um sömu efnisatriðin og verið hafa til umfjöllunar hjá hv. þingi og nefnd síðan í október, og tók ég reyndar fram strax í upphafi, í framsöguræðu minni, nauðsyn þess að taka á starfsleyfismálunum. Og það er einmitt það sem hv. þm. spurði um: Er ófremdarástand ríkjandi og er þetta viðurkenning hæstv. ráðherra á að svo sé? Það hef ég margsagt. Ég hef sagt að málin séu í blindgötu eins og þau eru núna og ganga ekki fram með réttum hætti. Þess vegna hef ég lagt áherslu á að við settum okkur skýrar reglur um það hvernig eigi að standa að útgáfu starfsleyfa og með hvaða hætti þau fari í gegnum heilbrigðisnefndir þar sem það á við, Hollustuvernd ríkisins þar sem það á við og ríkisstjórn eða ráðherra eða umhvrn. þar sem það á við. Nú getur menn auðvitað greint á um það og ég geri það ekki að neinu aðalatriði að viðmiðin séu við 950 millj. kr. Það er bara það sem hefur verið. Það er sú viðmiðun sem er búin að vera í fjöldamörg ár þannig að hún er ekki ný. Unnið hefur verið samkvæmt henni og útgáfa starfsleyfa hefur á undanförnum árum frekar en hitt verið færð frá ráðuneyti eða ráðherra til heilbrigðisnefndanna og Hollustuverndarinnar þannig að það nú þvert á móti ekki verið að færa þetta inn í ráðuneytið heldur frá því miðað við það sem gilt hefur á undanförnum árum. Sannleikurinn er sá varðandi þessi vandkvæði með útgáfu, lagasetninguna og reglugerðarmálin öllsömul sem er, a.m.k. ekki í andsvari tími til að rekja, þá er það ljóst að ekki hefur komið til útgáfu starfsleyfis af þessu tagi í þann tíma sem núgildandi lög hafa staðið, þ.e. það var ekki fyrr en í fyrra sem á þetta reyndi við útgáfu starfsleyfis fyrir stóriðju nú, í tíð þessarar ríkisstjórnar, sem þessi mál komu upp og sá vandi kristallast eða kemur fram með þeim hætti sem raun ber vitni.

Aðeins út af því að hv. þm. spurði um forstjórann, þá er forstjórinn ráðinn tímabundinni ráðningu í dag. Ég man ekki nákvæmlega hvaða ár ráðningartími hans rennur út (Forseti hringir.) þannig að það er ekki verið að breyta eða koma nýju inn í þessu efni hvað það mál varðar. Tvö eða þrjú atriði önnur gæti ég kannski nefnt í síðara andsvari, hæstv. forseti.