Hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 17:53:50 (2408)

1997-12-16 17:53:50# 122. lþ. 44.9 fundur 349. mál: #A hollustuhættir og heilbrigðiseftirlit# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[17:53]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það vilji í sjálfu sér allir. Ég held að enginn hafi gaman af því að einhver óvissa og vandræðagangur sé á ferðinni í þessum efnum. Það er öllum raun af slíku og sá vandræðagangur sem hefur verið í starfsleyfamálum undanfarin missiri er auðvitað engum til góðs.

Ég er ekki alveg dús við þá framsetningu eða röksemdafærslu að ef ekki er hægt láta þetta dúndra í gegn núna á fáeinum klukkutímum, liggur mér við að segja, tveim, þrem sólarhringum, þá séu engar líkur á að þetta verði afgreitt fyrr en í apríl eða maí. Þá er greinilega einhver vinna eftir við frv. sem er í umhvn. (Gripið fram í: Það er reynslan sem segir það.) Ætli það geti ekki verið staðreyndin að sú vinna væri lítt fram gengin og menn væru lítt farnir að huga að umsögnum og öðru slíku. Það skyldi nú ekki einmitt vera ein ástæðan fyrir því að menn fara hér fram með slíkri flýtiferð. Mér finnst alveg sjálfsagt að hv. nefnd fari ofan í saumana á því og kalli til sín aðila hversu brýnt það er í einstökum tilvikum að afgreiða mál en þá á líka að reiða fram upplýsingar um það. Þetta er engin frammistaða að koma með málið hér og tala í véfréttastíl um það að sennilega þurfi og liggi kannski á og það sé einhver umsókn í kerfinu. Menn eiga að gjöra svo vel og vinna heimavinnuna sína og koma fram með það hvenær starfsleyfi Sementverksmiðjunnar og Steinullarverksmiðjunnar falla úr gildi og hversu brýnt málið er. Hvar er stækkunarmálið á Grundartanga og er eitthvert smyglgóss með í ferðinni, einhver magnesíumverksmiðja eða annað fleira? Það er auðvitað sjálfsagt að fá hreinar línur í slíkt og það er alveg lágmark að nefndin eða þá hinn svokallaði meiri hluti hennar reiði fram upplýsingar um málið. Ég vona að mönnum detti ekki í hug að farið verði í gegnum 2. og 3. umr. fyrir jól öðruvísi en að þær upplýsingar liggi skýrar fyrir. (Forseti hringir.) Ég vil hins vegar spyrja hæstv. ráðherra að því og ráðherrann getur e.t.v. svarað síðar: Er ekki frekar unnt að ná samkomulagi um að vinna í þessu máli, t.d. í janúar, og stefna að afgreiðslu þess fyrir 15. febrúar? Annað eins hafa menn nú gert eins og það. Að semja um slíka hluti og reyna að vinna þetta sómasamlega.