Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 21:42:47 (2424)

1997-12-16 21:42:47# 122. lþ. 44.13 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv. 120/1997, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[21:42]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. gerði málefni Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri að umræðuefni og bar það saman við þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið varðandi sendiráð. Það er að mínum dómi grundvallarmunur þarna á. Ekki sá að sendiráðin séu neitt merkilegri en sjúkrahúsið. Auðvitað er það merkileg stofnun og ég vil henni allt hið besta. Hins vegar er þar um að ræða rekstur. En í hinu tilfellinu er um að ræða fjárfestingu. Það eru tveir ólíkir hlutir. Ætlunin er fara yfir rekstur sjúkrahússins á Akureyri og ég hef enga trú á öðru en að einhverju leyti verði komið til móts við þann halla sem þar er. Ég get ekki sagt á þessari stundu hverjar tölurnar verða í því efni en það er langt frá því að það sé búið að afskrifa það sjúkrahús að neinu leyti. En mér finnst rekstrartölur þær sem koma til af aukinni starfsemi og beinar fjárfestingar í sendiráðum erlendis ekki sambærilegir hlutir. Það er langt í frá að ég vilji afskrifa sjúkrahúsið á Akureyri, að komið verði til móts við þann halla sem þar er. Hann er nýtilkominn. Hann hefur komið til á síðasta ári og þessu ári og menn þurfa að gera sér grein fyrir því og því umfangi sem þar er áður en sá halli er greiddur.