Fjáraukalög 1997

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 21:44:58 (2425)

1997-12-16 21:44:58# 122. lþ. 44.13 fundur 55. mál: #A fjáraukalög 1997# (innan fjárhagsárs) frv. 120/1997, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[21:44]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Voðalega var þetta veiklulegt. Að það sé einhver sá munur á rekstrarútgjöldum og stofnkostnaði að það réttlæti að í öðru tilvikinu að menn fái allt á silfurfati umyrðalaust innan ársins en í hinu tilvikinu séu menn trakteraðir eins og sjúkrastofnanirnar hafa verið. Ég held að aðalmunurinn sé sá að í öðru tilvikinu heitir hæstv. ráðherra Ingibjörg Pálmadóttir og í hinu tilvikinu Halldór Ásgrímsson. Kynni það nú ekki að vera? Það virðast ekki allir vera jafnir hér, séra Jón og Jón.

Svo koma svörin. ,,Sjúkrahúsin eru að sjálfsögðu alveg jafnmerkileg og sendiráðin.`` En svo kemur þessi þoka: ,,Það verður skoðað og ég hef trú á að það verði litið á vandann og þetta verði athugað og kannað og sett í nefnd og hún muni komast að niðurstöðu um að út úr pottinum fari einhverjar fjárhæðir hugsanlega.`` Austfjarðaþokan leggst yfir salinn þegar farið er að svara um vanda sjúkrastofnana. Þetta er orðið óskaplega þreytt. Er ekki nokkur leið að fá skýr svör og hreinar niðurstöður í þessi mál? Fá bara sumir afgreiðslu klárt og kvitt í formi fjáraukalaga upp á hundruð milljóna og þurfa ekki einu sinni að mæta hérna í umræðunum til þess að standa fyrir máli sínu? Það hefur þó hæstv. heilbrrh. reynt að gera með kannski misjöfnum árangri. Við skulum ekki blanda því frekar inn í málin.

Mismununin er kristaltær í þessu máli. Sjúkrahúsin fá allt aðra og þokukenndari afgreiðslu hér heldur en hin fínu sendiráð.