Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 16. desember 1997, kl. 22:04:23 (2430)

1997-12-16 22:04:23# 122. lþ. 44.10 fundur 275. mál: #A stjórn fiskveiða# (endurnýjunarreglur fiskiskipa) frv. 133/1997, SJS
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur

[22:04]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég stend að nefndaráliti minni hluta og hef litlu að bæta við þá ágætu framsöguræðu sem flutt var fyrir því hér áðan. Ég ætla rétt að koma stuttlega inn á nokkur atriði.

Ég hef lengi verið talsmaður þess að úreldingarreglur verði teknar til endurskoðunar, þær rýmkaðar og aflagðar með einhverjum hætti. Það mætti gera í áföngum eða með því sem þætti hæfileg aðlögun og ég get því sagt að ég fagni því að svolítið miði í áttina með þessu frv. Reglurnar eru rýmkaðar en hitt er lakara að ekki er gert upp við þessi mál og málið ekki klárað. Í sjálfu sér geri ég ekki stórar athugasemdir við þá útfærslu sem hér er höfð á rýmkun reglna. Hún er þannig úr garði gerð að í reynd nýtist hún minni bátum og felur í sér meiri stækkunarheimildir fyrir minni báta en stærri skip. Fyrir því eru tæknilegar ástæður og fullkomlega frambærileg rök að hlutfallslega þurfi meiri rýmisaukningu þegar slík skip eru endurnýjuð ef aðbúnaður, öryggi og aðrir slíkir þættir eiga að koma eðlilega inn í myndina. Eitt af mörgu ólánlegu við þessar úreldingarreglur er það sem snýr að búnaði og öryggi sjómanna fyrir auk þess að þær hafa torveldað tæknilega og almenna endurnýjun flotans og staðið í vegi fyrir tæknivæðingu og þróun sem ella hefði orðið a.m.k. örari.

Ég er hins vegar ákaflega ósammála frágangi á síðasta málslið 1. gr. frv. Mér finnst það ankannaleg regla, ef menn á annað borð eru að baksast með þessa rúmmetra sína, að það kveðið skuli sérstaklega á um að rúmmetrar sem ekki ganga upp í einstökum endurnýjunarverkefnum og nýtast ekki við flutning veiðileyfa milli skipa eða vegna stækkunar, skuli falla niður. Tilviljanakennt er hversu vel menn ná að nýta þessa einingu í hverju tilviki og því liggur í hlutarins eðli að fyrir eigendur minni skipa getur verið erfitt að finna þannig samsetningu á móti úreldingunni, ef fleiri en eitt fley eru tekin úr umferð á móti endurnýjun, að það passi saman. Mér er kunnugt um að margir eigendur minni báta hafa kvartað sérstaklega undan reglunni eins og hún hefur verið í framkvæmd á undanförnum árum. Hún hefur verið sérstaklega óþjál fyrir endurnýjun og stækkun minni aflamarksbáta.

Nú koma rýmkunarákvæðin að vísu til með að nýtast þessum hluta flotans betur að vissum stærðarmörkum og það er vel en reglan er eftir sem áður ósanngjörn. Ég get ekki sætt mig við að úr því að menn eru að endurskoða þessi mál á annað borð, skuli ekki vera hægt að ná landi með að lagfæra svo augljóst atriði. Langeðlilegasta aðferðin hefði auðvitað verið sú að þessi réttindi væri hægt að geyma með einhverju móti í einhvers konar rúmmetrabanka ef halda á þeim sem varanlegri breytu inni í þessu stjórnkerfi til frambúðar.

Ég hef margsagt að ég tel að þessar reglur nánast sérstaka forneskju og tímaskekkju. Til að mynda er æ algengara að fiskiskip færi sig á milli lögsagna eftir því sem verkefni bjóðast og jafnvel hluta úr ári. Ég held að við eigum ekki að torvelda þá þróun og leggja stein í götu með óþjálu reglugerðarverki af þessu tagi.

Að lokum, herra forseti, er ég kominn að langalvarlegasta ágallanum við frágang þessa máls að mati okkar í minni hlutanum. Hann er sá að þrátt fyrir þessa rýmkun sem í sjálfu sér er jákvæð er málinu ekki lokið en þess í stað er óljóst hve lengi þetta reglugerðarmóverk verður við lýði, líklega enn um sinn en af æðstu mönnum eins og hæstv. sjútvrh. eru jafnvel spádómar uppi um að það verði nú sennilega ekki langlíft og ekki um aldur og ævi. Þetta er náttúrlega ekki mjög fastmótaður frágangur á þessu máli og setji sig nú hver sem vill í spor einstakra útgerðarmanna sem þurfa á næstu missirum að taka stórar ákvarðanir um fjárfestingar þar sem rúmmetrakvótinn, til viðbótar takmörkunar- eða stýrikerfi sem menn eru að baksa með til hliðar við aflamarkið og aðrar fiskveiðistjórnaraðgerðir myndar gullmyntfót. Þetta gæti verið silfurfótur viðskiptakerfisins þar sem segja má að aflamarkskerfið og framsalið og viðskiptin með veiðiréttinn séu gullmyntfóturinn. Menn vita að það hafa verið blómleg viðskipti með þessa rúmmetra. Þeir urðu um tíma, á öndverðu þessu ári eða hinu síðasta, mikil verðmæti. Ætli hver einasti rúmmetri í íslenska skipaflotanum hafi ekki verið farinn að ganga á milli 70--80 þús. kr. þegar best lét. Það verð hefur að vísu snarlækkað í og með vegna umræðna um ráðstafanir af því tagi sem nú á dagskrá. Eftir stendur að menn verða auðvitað að spyrja sig hvort það sé þess virði. Eru rök fyrir að halda áfram á sömu braut þó að rúmmetrinn kosti ekki nema 40 þús. kr. Það er svo sem ekki lítið ef í hlut á kannski nóta- og fjölveiðiskip með kælitönkum og 2.000 tonna burðargetu, þar væru sjálfsagt 5.000 rúmmetrar eða svo. Hver og einn ætti að geta reiknað fyrir sig. Ætli það sé þá vilji löggjafans og skynsamlegt að okkar mati að láta endurnýjun í slíku skipi taka á sig 200 millj. kr. viðbótarkostnað vegna reglugerðarverks af þessu tagi.

Af því að ég heyri að hv. þm. er að ræða við sessunaut sinn, þá er kannski rétt að fara aðeins yfir þetta dæmi ef menn átta sig ekki á því. Í því tilviki að verið væri að endurnýja 35--40 ára gamalt nótaskip sem væri þá einn af minni síðutogurunum, fyrst hefur verið tvöfaldað á honum á þilfarið, síðan hefur hann verið lengdur, settur á skutur og jafnvel breikkaður og þar fram eftir götunum. Þó svo hann væri kannski ekki ýkja mikið breyttur, þá er nokkuð víst að rúmmetratalan í slíku skipi er allt að helmingi lægri en í því skipi sem útgerðarmaður væri líklegur til að taka inn í dag. Margar stærðir við endurnýjun af þessu tagi hafa meira en tvöfaldast á þeim tíma sem hér er liðinn. Af fagmönnum, t.d. skipaverkfræðingum og öðrum slíkum, er talið að íbúðarrými fyrir skipshafnir hafi meira en tvöfaldast frá því sem var í skipum fyrir 30--40 árum. Ég býst við að margir hér sem hafa komið ofan í lúkar á síldarbát eða einhverjum af litlu síðutogurunum, viti hvernig þar var umhorfs. Þeir gætu reynt að bera það saman við stóra eins manns klefa í nýtískuskipi, leikfimissalinn og allt það.

Vélarrýmið hefur örugglega tvöfaldast einnig. Mun stærri vélar og mun meiri búnaður kallar á mikið meira pláss þannig að þar hefur rúmmetraþörfin gerbreyst vegna tæknilegra framfara en auðvitað einnig vegna meiri afkasta og meira afls. Brúin er orðin mun stærri, mun meiri tækjabúnaður og svo mætti lengi telja. Ef við tökum inn í bætta meðferð hráefnis, einangraðar lestir, tanka, kælikerfi og þar fram eftir götunum, þá verður niðurstaðan sú að rúmmetratalan er a.m.k. tvöföld og jafnvel meira. Í öllu falli er það hreinn viðbótarskattur og út af fyrir sig má segja að gangi þessi verðmæti kaupum og sölum þá eru þeir rúmmetrar sem útgerðarmaðurinn á í sínu gamla skipi verðmæti eins og hvað annað. Hann er að leggja þau upp í endurnýjunina kvótalaust, þannig að dæmið gengur að sjálfsögðu fullkomlega upp. Fórnarkostnaðurinn vegna kerfisins er þá 200 millj. kr. Þar má þó draga frá verðgildi rúmmetranna sem fyrir eru og ganga upp í. Ég veit að hv. þingmenn skilja þetta. Það er í það minnsta alveg augljóst mál að kerfið hefur verkað mjög hamlandi eins og það hefur verið. Ég held að það sé vitlaust. Ég tel alveg nóg að baksa með eitt kerfi með þetta viðskiptalega element, þ.e. kvótakerfið, þó þetta bætist ekki við.

Ég mun, herra forseti, óska eftir sératkvæðagreiðslu um þennan síðasta málslið 1. gr. og leggja til að hann verði felldur. Með því mundi Alþingi að mínu mati undirstrika vilja sinn. Efnisreglunni yrði breytt og þeir rúmmetrar sem ekki nýttust í einstakri endurnýjun gætu geymst og væru til staðar eftir sem áður. Að sjálfsögðu legg ég svo til að menn skoði hug sinn mjög vandlega gagnvart því að styðja brtt. okkar í minni hlutanum. Þá mundu reglur þessar hafa sólarlagsákvæði og falla úr gildi að þremur árum liðnum. Ég hygg að það sé hóflegur aðlögunartími og verðið á þessum rúmmetrum muni ósköp einfaldlega lækka. Það mun aðlaga sig með tiltölulega eðlilegum hætti miðað við að reglurnar yrðu aflagðar í framtíðinni. Menn vita þá í grófum dráttum að hverju þeir ganga þegar þeir fara í endurnýjun á næstu mánuðum þar sem rýmkun er komin til sögunnar en ef þeir bíða hins vegar í þrjú ár má reikna með því að slíkar reglur verði úr gildi fallnar. Fari síðan rúmmetraverðið verulega niður í kjölfar lagasetningarinnar og á næstu mánuðum þá verður það ekki stórt stökk í sjálfu sér hvort menn endurnýja á þeim tíma eða bíða með það. Þannig mundi þetta, að mínu mati, leysast tiltölulega farsællega og út úr þessu ætti að geta komið aðlögunarferli sem væri ásættanlegt fyrir menn að búa við. Hins vegar eru ýmis rök fyrir því að fella þetta kannski ekki niður með einu pennastriki eins og stendur. Það væri mjög harkaleg mismunun eða snögg breyting gagnvart þeim sem fyrir hálfu ári voru kannski að endurnýja fiskiskip og kaupa til þess þúsundir rúmmetra á 70 þús. kr. stykkið.

Um brtt. hv. þm. Gísla S. Einarssonar vil ég aðeins segja að þó ég skilji hinn góðan vilja hv. þm. um að leggja til að þessar rýmkunarreglur verði afturvirkar, þá vefst að nokkuð fyrir mér að sjá hvernig að því ætti að standa. Við hvaða mörk á þá að miða? Eigum við að láta þá njóta þess sem voru svo heppnir að ráðast ekki í endurnýjun eða stækkun fyrr en eftir áramót 1996/1997 en láta hina liggja óbætta hjá garði? Að mínu mati er jafnvandasamt að velja þau tímamót eins og hreinlega að láta breytingarnar taka gildi frá og með gildistöku laganna. Ég hallast að því að það sé vænlegasta reglan í þessu tilviki eins og endranær þegar leikreglum sé breytt. Það er betra að gera það hreinlega á þeim tímapunkti sem menn eru staddir hverju sinni. Annars lenda menn í ýmsum praktískum erfiðleikum. Með brtt. hv. þm. Gísla S. Einarssonar yrði að vekja upp með einhverju móti þá rúmmetra sem fallnir væru niður og heimila mönnum að fénýta sér þá með einhverjum hætti eða stækka út á þá á nýjan leik. Þó að ég skilji sannarlega góðan hug hv. þm. sem ég tel búa að baki þessari tillögu, þá er ég ekki sannfærður um að ég geti endilega mælt með samþykki hennar af þeim ástæðum sem ég hef gert grein fyrir og heyri að vekja kátínu í salnum.